16.4.2022 10:23

Heimþrá Úkraínumanna

Í byrjun vikunnar taldi landamæraeftirlit Úkraínu að tæplega 900.000 flóttamenn hefðu snúið aftur yfir úkraínsku landamærin. Fréttastofan AFP hefur síðan birt fréttir um að 25.000 til 30.000 Úkraínumenn snúi heim daglega

réttir herma að flóttafólk frá Úkraínu snúi nú aftur til vesturhluta landsins eftir að rússneski innrásarherinn beinir spjótum sínum einkum að austurhlutanum. Tölur hafa birst um að fimm milljónir hafi flúið vestur yfir landamærin og þunginn vegna fólksstraumsins sé mestur í Póllandi og Moldóvu, fátækasta landi Evrópu.

Í báðum löndunum hefur flóttafólkinu verið tekið opnum örmum en þegar lengra kemur frá Úkraínu berast fréttir um að opinber skriffinnska setji strik í reikninginn. Hvað sem henni líður hefur ekkert sambærilegt gerst í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Nú er talið að um 10 milljónir íbúa í Úkraínu hafi yfirgefið heimili sín eftir að stríðið hófst, fólkið hefur ekki aðeins leitað skjóls erlendis heldur einnig innan eigin landamæra. Innan Úkraínu og utan sést að fólk snýr aftur til heimkynnanna sem það neyddist til að yfirgefa.

Í byrjun vikunnar taldi landamæraeftirlit Úkraínu að tæplega 900.000 flóttamenn hefðu snúið aftur yfir úkraínsku landamærin. Fréttastofan AFP hefur síðan birt fréttir um að 25.000 til 30.000 Úkraínumenn, þar með konur og börn, snúi aftur til heimalands síns dag hvern til að endurreisa stríðshrjáð land sitt.

_124166110_tv075191457Pólskir lanadamæraverðir segja að færri komi nú yfir landamærin frá Úkraínu en áður, fleiri haldi að nýjiu til baka.

Í Jyllands Posten í dag, 16. apríl, er rætt við Flemming Spidsboel Hansen, fræðimann hjá Dönsku utanríkismálastofnuninni, Dansk Institut for Internationale Studier, DUPI, um það sem felst í fréttunum um flóttafólkið. Hann minnir á að sögulega séð hafi margir Úkraínumenn leitað sér starfa utan eigin landamæra , einkum til Rússlands, Póllands og Tékklands. Hafi meira að segja verið á reiki hve margir bjuggu í landinu sjálfu og hve margir erlendis.

Nú blasi hins vegar við að staðan í Úkraínu og stríðið hafi vakið tilfinningar sem valdi því að þessi sögulega hefð í fólksflutningum breytist og þess í stað sæki fólk að nýju í heimahagana.

Danski fræðimaðurinn segir að í stað þess að atvinnuleysi hafi stuðlað að brottflutningi fólks þrái það nú að fá tækifæri til að endurreisa land sitt. Hve fljótt straumurinn breytist megi ef til vill einnig rekja til þess að margir hafi í skyndi neyðst til að yfirgefa heimili sín og eignir og vilji sem fyrst sjá hvernig ástand þeirra er.

Blaðamaður Jyllands Posten bendir á að enn ríki stríðsástand víða í Úkraínu og spyr hvort í raun sé öruggt að snúa aftur til landsins. Flemming Spidsboel Hansen segir vissulega að margt sé enn óljóst en flestir vænti þess að ástandið taki að lagast, að minnsta kosti í Kyív og fyrir vestan borgina þar sem sjá megi merki sem bendi til stöðugleika í framtíðinni. Þar sjáist fólk til dæmis sitja utan dyra við kaffihús og á veitingastöðum. Hjólin snúist á sinn sérkennilega hátt.

Páskarnir boða upprisu. Vonandi eru fréttirnar sem hér er vísað til réttar og mat danska fræðimannsins. Það sætir undrun hve þrek og seigla Úkraínumanna er mikil. Þeir eflast við hverja raun á sama tíma og allar fréttir frá Rússlandi benda til vaxandi harðræðis og eymdar. Óttinn við að Pútin grípi til enn grimmdarlegri ódæðisverka er ekki úr sögunni.

.