Heimir Már peppar Flokk fólksins
Það varð ekki til þess að hækka risið á stjórnmálaumræðum í landinu að samfylkingarmaðurinn Heimir Már Pétursson hætti á Stöð 2 og tók að sér að stjórna Flokki fólksins og annast fjölmiðlamál hans.
Það varð ekki til þess að hækka risið á stjórnmálaumræðum í landinu að samfylkingarmaðurinn Heimir Már Pétursson hætti á Stöð 2 og tók að sér að stjórna Flokki fólksins og annast fjölmiðlamál hans.
Tilgangurinn með því að fá þennan fyrrverandi frambjóðanda til varaformanns í Samfylkingunni til að hafa alla þræði Flokks fólksins í hendi sér var örugglega að treysta grundvöll stjórnarsamstarfsins, sjá til þess að hvað sem kjörnir fulltrúar flokksins segðu væri ávallt opin leið bakdyramegin að þeim. Leið að einhverjum sem gæti kippt í spotta á bak við tjöldin.
Strax á fyrstu dögum sínum í þessu hlutverki greip Heimir Már til orðbragðs í lýsingum á andstæðingum Flokks fólksins sem var eins fjarri því að vera málefnalegt og verða mátti.
Í Morgunblaðinu í dag (4. október) birtist grein eftir Heimi Má þar sem hann veður út í þann drullupytt að líkja andstæðingum ríkisstjórnarinnar við nazista og áróðursmeistara þeirra Göbbels.
Heimir Már Pétursson (mynd: mbl.is).
Við Eiður heitinn Guðnason, þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, vorum sammála um að lægra væri ekki komist í opinberum umræðum en að grípa til nazistavopnsins til að styrkja málstað sinn. Þeir sem það gerðu segðu sig úr leik, þeir ættu ekkert erindi í opinberar umræður og væru í raun ekki þess virði að eyða ætti að þeim orðum.
Hér er það þó gert vegna þessarar greinar Heimis Más þar sem um er að ræða þriðju máttarstoðina undir ríkisstjórninni sem nú situr.
Hvað er það sem gerir yfirkommissara Flokks fólksins svona reiðan? Jú, það er að í stað þess að líta í eigin barm vegna úrslita þingkosninganna 30. nóvember 2024 þrammi „forysta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks nú troðnar slóðir. Óvinurinn eini og mikli [sé] Evrópusambandið. Öll frumvörp, þingsályktanir og reglugerðir, fundir ráðherra innanlands og utan [séu] allt eitt allsherjarsamsæri um að skjóta Íslandi inn í Evrópusambandið án þess að fávís almenningur fatti það“.
Fyrir utan þennan ótta við umræður um stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málum hræðist Heimir Már að Flokkur fólksins sé gerður að sérstökum skotspæni í stað þess að árásir séu gerðar á Samfylkingu og Viðreisn.
„ Nú skal herjað á ríkisstjórnina og skal þá ráðist með öllum tiltækum ráðum á Flokk fólksins og öll hans mál á Alþingi rægð niður í svaðið. Billeg og gömul barbabrella sem stjórnarflokkarnir og forystukonur þeirra láta ekki á sig fá. Halda bara skörulega áfram að gera nauðsynlegar breytingar öllum almenningi í hag.“
Heimir Már nefnir engin þingmál sem rökstuðning fyrir þessum kveinstöfum sínum. Gerði hann það, myndi athyglin ekki beinast að stjórnarandstöðunni heldur samstarfsflokkum Flokks fólksins í ríkisstjórninni. Það eru þeir sem brugðu fæti fyrir óskamál Flokks fólksins við þingslit í sumar.
Þingveturinn byrjar ekki vel hjá ríkisstjórninni ef skrifa þarf svona subbulega grein til að sannfæra þingmenn Flokks fólksins um að þeir séu á réttri leið – og ESB-aðild sé aðeins handan við hornið, haldi þeir áfram á sömu braut.