1.8.2018 10:13

Heimilislausir úr einni borgarnefnd í aðra

Varaformaður Samfylkingarinnar um vanda heimilislausra:

„Ég held að þessi fundur muni ekki breyta neinu, en gott er að setja nýja borgarfulltrúa inn í málið.“

Efnt var til sérstaks fundar í borgarráði Reykjavíkur í gær (31. júlí) að ósk minnihlutans í borgarstjórn til að ræða vanda heimilislausra í borginni. Fyrir liggur álit umboðsmanns alþingis um að borgaryfirvöld brjóti gegn lögum og stjórnarskránni auk fjölþjóðlegra mannréttindareglna við meðferð þessara mála.

Niðurstaða fundarins, sem stóð í fimm klukkustundir, varð á þann veg sem við var að búast. Meirihlutinn er kampakátur vegna niðurstöðunnar. Tillögur hans hafi hlotið brautargengi og næst verði efnt til fundar um málið í velferðarráði. Þar situr í formennsku

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.

Rætt var við Heiðu Björgu að morgni 31. júlí á rás 2 ríkisútvarpsins. Hún sagði:

 „Við auðvitað köllum eftir þessum tölum sem voru teknar saman í fyrra um fjölda heimilislausra, þetta eru auðvitað tölur frá 2017, þannig að þetta er svosem ekkert nýtt sem þarf að bregðast við í þessari viku.“

Í lok viðtalsins sagði Heiða Björg að hún teldi fundinní borgarráði ekki breyta miklu:

 „Ég held að þessi fundur muni ekki breyta neinu, en gott er að setja nýja borgarfulltrúa inn í málið.“

Með „nýjum borgarfulltrúum“ á Heiða Björg væntanlega við þá nýju borgarfulltrúa sem starfa með henni í meirihluta borgarstjórnar. Hún leit á fundinn í borgarráði sem tækifæri til að fræða þá um að þeir sem setið hafa í borgarstjórn viti allt um þetta mál þótt þeir hafi ekki gert annað en safna saman tölum sem sýna að á fáeinum árum hefur heimilislausum í Reykjavík fjölgað um 95%.

Þá hefur Heiða Björg einnig sagt félögum sínum að þeir skyldu bara vísa málinu til meðferðar í ráðinu hjá sér auk þess sem þeir ættu að skella skuldinni á önnur sveitaefélög og ríkisvaldið. Allt gekk þetta eftir enda í samræmi við það sem gerst hefur á þessum vettvangi undanfarin ár.

Það var bjartsýni hjá minnihluta borgarstjórnar að halda að hann fengi einhverju breytt í vinnubrögðum meirihlutans. Krafa minnihlutans um fundi vegna málsins hefur þó orðið til að sýna betur ómarkviss vinnubrögð meirihlutans – húsnæðislausum heldur einfaldlega áfram að fjölga fari svo sem horfir.