22.10.2018 10:37

Heimildarmynd um „fábjánagang“

Heimildarmyndin um sendiráðstökuna er áreiðanlega ekki gerð til að sýna þá hlið á ofbeldisverkinu sem Gústaf Adolf lýsir.

Gústaf Adolf Skúlason í Svíþjóð skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í dag (22. október) vegna þess að gerð hefur verið heimildarmynd um atburði fyrir um 50 árum þegar íslenskir námsmenn í Stokkhólmi lögðu undir sig sendiráðið þar. Var það liður í lögbrotum sem kennd eru við ´68 kynslóðina svonefndu. Í greininni segir Gústaf Adolf að gerð myndarinnar hafi verið styrkt með 13 m. kr. úr vasa skattgreiðenda auk þess sem ríkisútvarpið kaupi sýningarréttinn. „Ég neitaði að taka þátt í þessu heilaþvottaverkefni sem enn í dag fegrar kommúnismann og hryðjuverkaleiðtogann Karl Marx.“

Hann var nýbakaður stúdent frá MR þegar hann tók þátt í sendiráðstökunni, einn „ellefumenninganna svokölluðu“.  Í greininni segir: 

„Fábjánagangurinn var í slíkum hávegum að við hlógum að því, þegar minnst var á, að lögreglan í Stokkhólmi hafði nýlega staðið í blóðugum skotbardaga við ódæðismenn á staðnum. [...]Við sem stóðum að sendiráðstökunni erum í þakkarskuld við sænsku lögregluna, sem tókst afburðavel að leysa vandann án þess að blóði væri úthellt. [...]Við hefðum allir dáið í þeim sértrúarsöfnuði þar sem foringinn hefði sagt að við þyrftum að fremja sjálfsmorð vegna þess að heimsendir kæmi í kvöld. [...] Ellefumenningarnir spruttu úr sama jarðvegi og hryðjuverkahópar Baader Meinhof, Rauðu herdeildanna og Rauðu herbrota Ítalíu. Róttæk námsmannahreyfing í höndum marx-lenínista með markmiðið að ná völdum í blóðugri byltingu og koma á alræði öreiganna.“

1970-studentar-radast-inn-i-sendirad-islands-i-stokkholmiEllefu íslenskir stúdentar réðust inn á sendiráð Íslands í Stokkhólmi 20. apríl 1970. Ráku út starfsfólkið og beittu sendiráðsritarann ofbeldi, er hann neitaði að hverfa á braut. Tveimur stundum síðar fjarlægði Stokkhólmslögreglan stúdentana úr sendiráðinu. Myndin er úr sænsku blaði og sýnir lögregluna leiða einn árásarmannanna á brott.

Heimildarmyndin um sendiráðstökuna er áreiðanlega ekki gerð til að sýna þá hlið á ofbeldisverkinu sem Gústaf Adolf lýsir á ofangreindan hátt. Hann segir: „Mér finnst bara sorglegt að sjá suma jafnaldra mína enn á sama stað eftir tæpa hálfa öld. Hefur virkilega engin þróun átt sér stað?“

Ætli myndin sé ekki einmitt gerð til að réttlæta að sumir séu „enn á sama stað“ og geti litið með stolti til „fábjánagangsins“?

Laugardaginn 20. október elti fréttamaður ríkisútvarpsins fáeina einstaklinga sem enn lifa í ´68 hugmyndafræðinni upp í Þjórsárdal þegar þeir mótmæltu æfingu landgönguliða undir merkjum NATO þar. Daginn eftir upplýsti fréttamaðurinn að birkiplöntur hefðu skaddast vegna æfingarinnar og kallaði fram játningu máli sínu til stuðnings hjá starfsmanni Skógræktar ríkisins sem hafði ekki farið á svæðið! „Fábjánagangur“ er enn þann dag í dag vinsælt fréttaefni ríkisútvarpsins.