18.9.2020 21:32

Heimför í skimun og sóttkví

Vel og skipulega er að öllu staðið við skimunina. Snjallsíminn er lykill að skráningu og greiðslu.

Heimförin frá Bornholm gekk vel í dag. Fámenni var á Kaupmannahafnarflugvelli og brýnt fyrir öllum að ganga með grímur. Vél Icelandair þaðan var eina Evrópuvél félagsins í dag (18. september). Þetta var 767 Boeing-vél með sæti fyrir 262 en 757-vélarnar eru með 225 sæti. Var vélin vel setin.

Þjónusta í flugvélum er í raun engin vegna COVID-19-faraldursins. Vatnsflaska er í boði þegar gengið er inn í vélina. Heimilt er að taka með sér „skrínukost“ og taka af sér grímuna þegar borðað er, annars ber að sitja með grímu.

Handfarangur er takmarkaður. Fyrir brottför í Kaupmannahöfn var oftar en einu sinni tilkynnt að vegna reglna Icelandair yrði að láta af hendi við útgönguhlið allar handfarangurstöskur á hjólum. Þeir sem voru með hjólalausar töskur máttu taka þer með sér inn í vélina og setja í hólf fyrir ofan sæti en við innritun var tekið fram að aðeins mætti hafa með sér „einn hlut“ og hann yrði að komast undir sætið.

IMG_2110Oft hafa verið fleiri bílar á langtímastæðinu við Leifsstöð.

Það leið um klukkustund frá því að gengið var frá borði vélarinnar þar til farangur var kominn í bílinn á langtímabílastæðinu. Á þessari klukkustund fór ég í fyrsta sinn í skimun vegna COVID-19. Fyrir mig var það með öllu án óþæginda.

Vel og skipulega er að öllu staðið við skimunina. Snjallsíminn er lykill að skráningu og greiðslu. Ég hafði ekki áttað mig á kostum forskráningar í skimun fyrr en á flugvellinum í Kaupmannahöfn. Þar sem ég var svona seinn greiddi ég 11.000 kr. fyrir skimunina hefði ég haft lengri fyrirvara hefði kostnaðurinn verið 9.000 kr.

Fyrir þá sem hafa alls ekki munað að forskrá sig er aðstaða til skráningar í Leifsstöð en strikamerkingin sem send er í snjallsíma þess sem skráir sig er grunnþáttur í ferlinu sem hefst með skimuninni og leiðir til 5 daga sóttkvíarinnar þar til skimað er að nýju.

Ég hafði eigin bíl á stæðinu, ók í bæinn, sótti mat sem Rut hafði keypt og hélt austur að Kvoslæk þar sem ég dvelst einn í samræmi við sóttkvíarreglur en þær voru brýndar fyrir mér eftir skimunina.

Gætti ég þess að eiga ekki samskipti við neina en mér var sagt að ökuferðir annað en á áfangastað væru ekki lengur heimilaðar, ég mætti hins vegar fara einn í gönguferðir.

Nú er aðeins að bíða þess hvað fyrri skimunin leiðir í ljós.