27.10.2023 10:31

Heilsufar Pútíns

Þetta er ekki fyrsta sinn sem kvittur um heilsuleysi Pútíns fer um fjölmiðlaheiminn. 

Fréttir eru á kreiki um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti (71 árs) hafi fengið hjartaáfall laugardaginn 21. október. Fyrstu fréttir birtust um þetta á Telegram-samfélagsmiðlinum. Þær hafa síðan farið um vestræna fjölmiðla þótt Dmitríj Peskov, talsmaður forsetans og Kremlverja, segi um hreinan uppspuna að ræða.

60159849_605

Miðvikudaginn 25. október birti sjónvarpsstöðin GB News í London viðtal við Anthony Glees, fyrrv. prófessor í stjórnmála- og öryggismálafræðum við Buckingham-háskóla, sem sagði að Pútín glímdi vafalaust við veikindi.

„Pútín er mjög slappur. Annað er óhugsandi. Sama hvað honum finnst sjálfum, hann er dauðlegur eins og við öll. Stóra spurningin er auðvitað hve slappur hann er. Ég tel mjög líklegt að hann sé mjög slappur, glími ekki aðeins við almennan slappleika.“

Þarna er ekki afdráttarlaust að orði kveðið heldur farið í kringum meint heilsuleysi forsetans án þess að draga í efa að það sé fyrir hendi, hann sé líklega veikur.

Prófessorinn segir ekki heldur óhugsandi að Pútín noti tvífara til að villa um fyrir umheiminum og leyna veikindum sínum fyrir utan að nota lyf í sama skyni. Þegar Glees er spurður um meint hjartaáfall Pútíns 21. október og orð Peskovs um rangar fréttir segir hann:

„Hér er vandinn sá að ekki er unnt að treysta slíkum afneitunum og rússnesk yfirvöld hafa ávallt reynt að leyna veikindum ráðamanna sinna, þannig var það til dæmis á tíma Sovétríkjanna og einnig þegar rætt var um alkóhólisma Jeltsíns.“

Pútín tók við forsetaembættinu af Bóris Jeltsín um aldamótin eftir að hafa tekið þátt í blekkingarleiknum í kringum heilsuleysi Jeltsíns.

Glees leggur hins vegar áherslu á vilja Pútíns sjálfs til að sýnast sem stekastur fyrir utan að Kremlverjar hafi „allan hag af því að sýna Pútín í óbreyttri mynd“.

Að mati prófessorsins kann Parkinsonveiki eða blóðkrabbi að herja á Pútín en lokaniðurstaða hans er þessi: „Jafnvel þótt líkami hans starfi áfram er sál hans rotin ofan í rót og það mun að lokum ráða örlögum hans.“

Peskov segir að allt þetta tal sé „hreint bull“, ekkert sé að Pútín:

„Þetta fellur undir það sem kalla má furðufréttabull sem sumir fjölmiðlar flytja af öfundsverðri þrautseigju. Þetta er í besta falli broslegt.“

Pútín hefur opinberlega neitað að hann noti tvífara. GN News segir hins vegar að Japanir hafi notað gervigreind til að sannreyna að Pútín hafi sjálfur komið fram einhvers staðar, slíkar rannsóknir veki grunsemdir.

Á Telegram segir að tvífari Pútíns glími við þann vanda að stækkun kinnbeina hans hafi misheppnast í lýtaaðgerð og hann eigi í vandræðum með að halda þeim kyrrum, þau „fljóti“ stundum.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem kvittur um heilsuleysi Pútíns fer um fjölmiðlaheiminn. Til þessa hafa talsmenn yfirvalda á Vesturlöndum blásið á allt slíkt og fyrir nokkrum mánuðum gaf forstjóri CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, Pútín hreint heilbrigðisvottorð. Það sem Glees prófessor segir um sálarlíf Pútíns er líklega óumdeildara en aðrar sjúkdómsgreiningar hans.