15.4.2020 15:21

Heillaóskir til Vigdísar

Fyrir mína hönd og annarra félaga hennar í Aflinum, félagi qigong iðkenda, sendi ég Vigdísi innilega afmæliskveðju.

Halla Harðardóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, ræddi við frú Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni 90 ára afmælis hennar og birtist viðtalið laugardaginn 11. apríl. Halla spurði Vigdísi að lokum hvernig hún færi að því að halda svona vel í heilsuna og gleðina. Vigdís svaraði:

„Ég er alltaf að gera það sem mér finnst skemmtilegt og mér finnst afskaplega gaman að vera til. Ég er svo þakklát fyrir að hafa þessa góðu heilsu en ég þarf auðvitað að hafa fyrir því. Ég hef stundað Qigong í 25 ár og ég hjóla hérna úti og reyni að hreyfa mig,“ segir Vigdís og bendir á þrekjól sem stendur úti á svölum á milli blómapottanna.“

Við sem höfum stundað Qigong með Vigdísi allan þennan tíma þökkum henni samfylgdina á þeim vettvangi, vináttuna, áhugann og alúðina sem hún sýnir þar eins og hvarvetna annars staðar.

Fyrir mína hönd og annarra félaga hennar í Aflinum, félagi qigong iðkenda, sendi ég Vigdísi innilega afmæliskveðju með fáeinum ljósmyndum sem Viðar H. Eiríksson, ritari Aflsins, tók árin 2004 og 2006.

A00V6806Myndin er tekin í matsal Þjóðleikhússins í mars 2006. Gunnar Eyjólfsson leikari er höfundur æfingakerfis Aflsins, Gunnarsæfinganna. Þarna skýrir hann einhverja æfingu fyrir Vigdísi yfir tertusneið að lokinni morgunæfingu.

163-6362_IMG-2Gunnar leiðir hóp í Lónkoti, skammt fyrir norðan Hofsós 26. júní 2006.

088-Lonkot-2004Vigdís og Gunnar í Lónkoti - á milli þeirra er Lóa Konráðs.

075-Lonkot-2004Í fjörunni við Lónkot.