9.6.2018 10:10

Heilbrigðisráðherra á rangri leið

Ríkisstjórnin segist ætla að auka jöfnuð í samfélaginu. Framkvæmi heilbrigðisráðherra stefnu sína um að hefta greiðslur sjúkratrygginga til sérfræðilækna verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi.

Læknarnir Stefán E. Matthíasson og Þórarinn Guðnason segja í grein í Morgunblaðinu föstudaginn 8. júní:

„Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum...“

Af fáum þáttum samfélagsins eru fluttar fleiri neikvæðar fréttir í ríkisútvarpinu en heilbrigðismálum. Ef til vill hefur fréttastofa ríkisins sagt frá þessari jákvæðu niðurstöðu sem birtist í The Lancet um Ísland í efsta sæti á lista vegna heilbrigðistengdra gæðavísa og aðgengi. Fréttin kann þó að hafa þótt of jákvæð miðað allan bölmóðinn.

Í fyrrnefndri grein læknanna var gagnrýni beint að Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir aðför hennar að íslenska heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir þessa alþjóðlegu ágætiseinkunn. Ráðherrann sér ofsjónum yfir sérfræðiþjónustu lækna, að eigin sögn vegna kostnaðar við hana. Bregður nú svo við að ráðherrann sem er sífellt með kröfu um aukin fjárframlög á vörunum segist hafa áhyggjur af útgjöldum vegna þjónustu þessara lækna. Það er holur hljómur í þessum málflutningi, að baki hans býr ofurtrú gamalla sósíalista á að ríkisrekstur leysi allan vanda.

Medecins-specialistesÍ grein læknanna Stefáns og Þórarins segir að í fyrra hafi  sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands tekið á móti um 500 þúsund heimsóknum. Stofustarfsemi sérfræðilækna sé stærri en göngudeildarstarfsemi tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins. Um 350 sérfræðilæknar starfi á samningum en þessi umfangsmikla starfsemi taki einungis til sín 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. „Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr miðað við í nágrannalöndum og með gott aðgengi sjúklinga. Gæðin þarf enginn að draga í efa. Það er vandséð annað en að hér sé vel farið með hverja krónu skattfjárins,“ segja læknarnir. Undan þessu kerfi ætlar heilbrigðisráðherra hins vegar að grafa til að spara útgjöld! Þá hefur hún hrakið forstjóra sjúkratrygginga úr starfi til að ná markmiðum sínum.

Ríkisstjórnin segist ætla að auka jöfnuð í samfélaginu. Framkvæmi heilbrigðisráðherra stefnu sína um að hefta greiðslur sjúkratrygginga til sérfræðilækna verður til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Efnafólk kaupir sér þjónustu læknanna en hinir fara á ríkis-biðlistana. Lenging þeirra er líklega mælingin sem ráðherrann kann að meta en ekki það sem birtist í The Lancet.