27.8.2020 9:49

Heilbrigðiskerfi í ríkisfjötrum

Heilbrigðiskerfið er í svipuðum sporum og háskólastarfsemin var fyrir rúmum 20 árum áður en losað var um ríkisfjötrana.

Háskólakerfið hér á landi er blandað. Fjórir skólanna eru ríkisreknir: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Þrír eru einkareknir: Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Listaháskóli Íslands.

Hver skólanna hefur sinn brag. Þótt stundum sé sagt að það sé of í lagt fyrir fámenna þjóð að starfrækja sjö háskóla breytist viðhorfið þegar farið er í saumana á þróun skólanna og skoðuð tengsl þeirra annars vegar inn í íslenskt samfélag og hins vegar gagnvart alþjóðasamstarfi sem hefur blómstrað á undanförnum árum og heldur áfram að dafna þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn.

966279Landspítalinn (mynd mbl.is).

Enginn veit hvernig háskólamenntun væri háttað í landinu ef hún lyti alfarið stjórn ríkisins í einum háskóla í Reykjavík og öðrum á Akureyri. Þá mætti einnig velta fyrir sér hvernig væri ef ráðherra hefði miðstýringarvald um ráðstöfun fjármuna til háskólastarfsemi og gæti með reglugerð ákveðið hvaða nám hver skóli byði og hvort það yrði í höndum ríkisins eða á vegum einkaaðila.

Heilbrigðiskerfið er í svipuðum sporum og háskólastarfsemin var fyrir rúmum 20 árum áður en losað var um ríkisfjötrana.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, þingmann Miðflokksins, sem lýsir hvernig fjármunum er miðstýrt af ráðherra innan heilbrigðiskerfisins.

Sögð saga konu á landsbyggðinni sem fyrir sex árum fór í aðgerð á vinstra hné í Sjúkrahúsinu á Akureyri, hún var ekki sátt við árangurinn. Leitaði hún álits hjá einkafyrirtækinu Klínikinni og ákvað að kosta þar sjálf vel heppnaða aðgerð á hægra hné enda er Sjúkratryggingum Íslands bannað að hlaupa undir bagga vegna slíkra aðgerða í Klínikinni. Í vor datt konan og þurfti að fara í vel heppnaða axlaraðgerð í einkafyrirtækinu Orkuhúsinu og greiddu Sjúkratryggingar Íslands kostnaðinn.

Í lok greinar sinnar segir Anna Kolbrún:

„Svo virðist sem Sjúkratryggingar Íslands séu með samning við lækna sem starfa í Orkuhúsinu en hafi ekki virkan samning við lækna sem starfa hjá Klíníkinni, eitthvað er það sem ekki rímar saman. Það er ekki nema von að konan hafi spurt hver sé munurinn á öxl og hné, vonandi verður sú spurning tekin með í svari heilbrigðisráðherra þegar sagt er að til skoðunar sé hvort semja megi um tilgreinda sértæka þjónustu innan ramma laga um heilbrigðisþjónustu.“

Í upphafi COVID-19-faraldursins var gripi til harðra samfélagslegra aðgerða til að verja heilbrigðiskerfið. Framvarnarlínan var í sjúkrahúsunum.

Nú er þetta ekki lengur höfuðmarkið aðgerða gegn kórónuveirunni. Rök af þessu tagi eru hins vegar notuð til að banna Sjúkratryggingum Íslands að greiða kostnað við aðgerðir á hné í Klínikinni.

Að miðstýringar- og fjárveitingarvaldi sé háttað á þann veg að ráðherra geti ákveðið að skattgreiðendur hlaupi undir bagga vegna einka-aðgerðar á öxl en ekki hné er hróplegt dæmi um nauðsyn aukins frelsis og fjölbreytni í heilbrigðismálum.