10.10.2019 10:15

Heiftin ræður innan Eflingar

Síðast þegar lesendum síðu minnar voru birtar frásagnir um vinnubrögð sósíalistanna Sólveigar Önnu og Viðars rauk hún upp á nef sér og lýsti mér sem „mykjudreifara“.

Lýsingarnar á framgöngu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar-stéttarfélags, og Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra félagsins, í fjölmiðlum eru þess eðlis að ástæða er til að halda umræðu um stjórnarhætti þeirra vakandi.

Miðvikudaginn 2. október birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu þar sem fyrrverandi starfsmaður Eflingar sakar þau um „vænisýki“ eins og segir í fyrirsögn. Í fréttinni stendur:

„Ég var rekinn án útskýringa og án þess að fá áminningu. Það var talað um trúnaðarbrest, sem ég veit ekki hver á að vera. Síðan fékk ég að vita að ástæðan var að Sólveigu Önnu [Jónsdóttur, formanni Eflingar] fannst stafa einhver ógn af mér í valdabaráttunni. Vænisýkin var orðin algjör,“ segir Maxim Baru, fyrrverandi sviðsstjóri félagssviðs Eflingar.“

Af frétt inni í blaðinu má ráða að þau Sólveig Anna og Viðar hafi óttast að Maxim Baru tæki af þeim völdin með því að vilja ganga lengra en þau í kröfugerð og baráttu í tengslum við kjarasamningana fyrri hluta árs 2019. Baru hefur þá sérstöðu meðal þeirra sem orðið hafa fyrir barðinu á Sólveigu Önnu og Viðari með brottrekstri að hann starfaði ekki fyrir Eflingu þegar þau komust þar til valda. Þau réðu hann sjálf til starfa fyrir félagið.

1118700Þessi mynd birtist á mbl.is af Sólveigu Önnu í baráttuskapi í kjarabaráttunni  í byrjun árs 2019, líklega áður en hún rak Maxim Baru af því að hún taldi hann ógna áhrifum sínum og valdi.

Þráinn Hallgrímsson, fyrrv. skrifstofustjóri Eflingar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (10. október) undir fyrirsögninni: Ásakanir byggðar á ósannindum. Þar rekur hann ósannindi Viðars Þorsteinssonar í tilefni af brottrekstri Þráins frá Eflingu. Af lestri greinarinnar má ráða að svo mjög hafi verið vegið að heiðri Þráins að heilsa hans, andleg og líkamleg, hafi ekki þolað álagið. Þegar hann veiktist var brugðist við á þann hátt að hafna réttmætri kröfu hans um greiðslu veikindalauna. Öllum ráðum eða brögðum er greinilega beitt til að niðurlægja það fólk sé það ekki að skapi Sólveigar Önnu og Viðars.

„Rétturinn til veikindalauna verður ekki tekinn af launamanni og hvorki er hægt að semja hann frá sér né afsala. Hann var ekki undanþeginn í samkomulagi mínu samkvæmt ráðningarsamningi,“ segir Þráinn.

Í greininni segir hann um Sólveigu Önnu og Viðar: „Þau taka á öllu andófi innan sinna eigin raða með hreðjataki.“ Þráinn staðfestir lýsinguna hjá Baru í Fréttablaðinu og segir jafnframt:

„Reiðin er vondur ráðgjafi og heiftin enn verri. En það nægir hvergi að láta Moggann hverfa af kaffistofunni þegar óþægileg gagnrýni birtist. Lygin er lævís meðreiðarsveinn og þegar Viðar Þorsteinsson heldur því fram blákalt að ég hafi kvatt Eflingu sáttur þá er það ósatt og hann veit það. Það er líka ósatt að ég hafi tekið í hönd hans og kvatt hann. Hvorugt þeirra var á vinnustaðnum þegar ég fór síðastur manna eins og oft áður úr húsi mánudaginn 14. maí 2018. Ég skildi lykla mína eftir. Þannig kvaddi ég verkalýðshreyfinguna eftir nærri hálfan fjórða áratug í ábyrgðarstörfum.“

Síðast þegar lesendum síðu minnar voru birtar frásagnir um vinnubrögð sósíalistanna Sólveigar Önnu og Viðars rauk hún upp á nef sér og lýsti mér sem „mykjudreifara“. Að baki heiftarinnar býr líklega von um geta knúið fram þöggun. Henni verður ekki kápan úr því klæðinu.