8.5.2018 10:01

Heift Hjálmars í garð Höfðatorgs

Segir Pétur að afskipti Hjálmars af framkvæmdum á Höfðatorgi hafi kostað Eykt tugi milljóna króna.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag (8. maí) birtist frétt um að Samfylkingin auki forskot sitt í Reykjavík og fái átta borgarfulltrúa en Sjálfstæðisflokkurinn sex og aðrir minna. Miðað við stjórnarhætti í borginni er þetta í raun ill skiljanlegt og ætti að vera þeim áhyggjuefni sem vilja binda enda á oflætið og firringuna sem einkennir forystumenn Samfylkingarinnar í borgarstjórn.

Stjórnarhættir kjörinna fulltrúa í borgarstjórn gjörbreyttust við að Jón Gnarr varð borgarstjóri fyrir átta árum. Þá settist „freki kallinn“ í ráðhúsið og borgarbúar hættu endanlega að eiga beinan aðgang að borgarstjóra. Dagur B. Eggertsson hefur tileinkað sér svipaða hætti og Jón Gnarr á stóli borgarstjóra. Sama verður sagt um Hjálmar Sveinsson, samflokksmann Dags B.

Þessi mynd frá Höfðatorgi birtist í Morgunblaðinu.

Í Morgunblaðinu í dag birtist samtal Baldurs Arnarsonar blaðamanns við Pétur Guðmundsson, stjórnarformann byggingafyrirtækisins Eyktar, sem lýsir samskiptum sínum við Hjálmar Sveinsson, formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Segir Pétur að afskipti Hjálmars af framkvæmdum á Höfðatorgi hafi kostað Eykt tugi milljóna króna. Lýsingin ber með sér að geðþótti Hjálmars ráði ákvörðunum hans.

Pétur telur Hjálmar Sveinsson vanhæfan í málum Höfðatorgs og segir:

„Ég veit ekki hvort það hefur með það að gera að áður en Hjálmar Sveinsson komst til valda var hann með útvarpsþætti um skipulagsmál í Ríkisútvarpinu. Taldi sig vita mikið um þau. Þar níddi hann niður mörg byggingarverkefni í borginni. Þar á meðal var Höfðatorg sérstakt áhugamál. Hjálmar var síðan með gönguferðir um Reykjavíkurborg og níddi niður ný og fyrirhuguð byggingarverkefni í borginni. Það er mjög sérstakt að svona skuli viðgangast. Ég fór í eina gönguna sem endaði á Höfðatorgi. Þar hellti Hjálmar sér yfir Höfðatorgsverkefnið, sagði það dæmi um skipulagsslys. Hvernig á svona maður að geta fjallað um málið á eðlilegan hátt þegar hann er orðinn formaður skipulagsnefndar? Ég tel hann vanhæfan til að fjalla um Höfðatorg, enda hefur það komið berlega í ljós.“

Það er áberandi við kosningabaráttu Dags B. og Samfylkingarinnar í Reykjavík hve Hjálmar Sveinsson er lítt áberandi. Hann er þó enn á lista Samfylkingarinnar og nær endurkjöri fari svo fram sem horfir.