Heiðrum minningu sr. Friðriks
Allt er þetta satt og rétt og vonandi ganga sem flestir til liðs við félagið Æruvernd. Við sem komumst ekki á fundinn í dag getum gerst stofnfélagar með tölvubréfi til aeruvernd@aeruvernd.is
Í dag, sunnudaginn 25. janúar, verður félagið Æruvernd stofnað í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Markmið þess er að verja æru alls fólks, lifandi og látins, og endurreisa mannorð séra Friðriks Friðrikssonar heitins, æskulýðsleiðtoga og stofnanda bæði KFUM og K og íþróttafélagsins Vals.
Það eru „drengir séra Friðriks“ sem boða til fundarins, nú fullorðnir menn, sem nutu kristilegrar leiðsagnar hans á sínum tíma. Markmið félagsins verður einnig að styðja við kristna trú og kristin gildi.
Ég er í hópi þeirra sem muna eftir að hafa hitt sr. Friðrik í stofu hans í húsi KFUM við Amtmannsstíg í miðborg Reykjavíkur og undraðist mjög hvernig vegið var að minningu sr. Friðriks eftir útkomu ævisögu hans árið 2023.
Sr. Friðrik Friðriksson (mynd:mbl/Ól.K.M.)
Sr. Karl Sigurbjörnsson heitinn biskup segir í minningarbrotum sínum, Skrifað í sand, sem komu út fyrir jólin að hann og fjölskylda hans hafi þekkt sr. Friðrik og borið „ómælda, lotningarþrungna virðingu“ fyrir honum. Sr. Sigurbjörn Einarsson biskup, faðir Karls, hafi talið sr. Friðrik til „sinna mestu velgerðarmanna“. Þá segir í bókinni:
„Oft fengum við bræður að fylgja pabba er hann heimsótti öldunginn á heimili hans við Amtmannsstíg. Það var eins og að stíga inn í helgidóm að koma inn í stofuna hans sem var mettuð höfugum vindlareyk. Bækur upp um alla veggi, helgimyndir, styttur. Í hægindastól í horninu sat öldungurinn, hvítskeggjaður með bjartan svip en augun blind. Ekki man ég samræður þeirra, en ég man hrjúfu, sérkennilegu röddina og hásan hlátur.“
Þetta kemur heim og saman við minningu mína um heimsókn í stofu sr. Friðriks. Í huga mínum festist einnig að við hlið hans hafi verið stór krús með köldu kaffi.
Sr. Karl segir að fyrir sig hafi verið „gríðarlegt áfall og harmsefni“ að heyra og lesa það sem sagt var um drengjagirnd sr. Friðriks vegna útkomu ævisögu hans. Borgaryfirvöld hafi brugðist hratt við og fjarlægt minnismerki hans við Amtmannsstíg til að „afmá þannig minningu hans“. Og þá spyr sr. Karl:
„Er það allt þá einskis vert og hér eftir hjúpað svörtu skuggaskýi alvarlegra grundsemda? Hvað með allar hlýjar minningar hinna ótal mörgu sem hrifust af honum, boðun hans, mannræktarstarfi, vitnisburði um Jesú Krist, krossfestan og upprisinn? Munu þróttmiklir sálmarnir hans og söngvar, sem hafa auðgað hið kristna samfélag svo ríkulega, þagna? Ég má ekki til þess hugsa.“ (55)
Allt er þetta satt og rétt og vonandi ganga sem flestir til liðs við félagið Æruvernd. Við sem komumst ekki á fundinn í dag getum gerst stofnfélagar með tölvubréfi til aeruvernd@aeruvernd.is
Það er kapítuli út af fyrir sig að velta fyrir sér fljótræði borgaryfirvalda við að fjarlægja styttu Sigurjóns Ólafssonar af sr. Friðrik. Í apríl 1951 birti hópur kvenna og karla, áhrifafólks í samfélaginu, ávarp þar sem hvatt var til þess að „að líkani af síra Friðrik (almynd) verði komið upp í höfuðstað landsins“. Í ávarpinu segir: „Síra Friðrik er einstæður maður með samtíð sinni, og í framtíð mun þjóðin virða minningu hans sem eins sinna mestu velgjörðarmanna.“
Þetta var mat samtíðarmanna sr. Friðriks. Styttan var reist. Borgaryfirvöld hafa hana nú í felum! Þeim feluleik verður að ljúka með því að setja styttuna aftur á sinn stall.