17.10.2022 9:30

HBO-aðstoð – leiðin frá Venesúela

Við getum ekki náð HBO í venjulegu streymi og skildi fyrirtækið Ísland út undan með fáeinum öðrum Evrópulöndum á þessu ári.

Forsíðurammi í Morgunblaðinu í morgun (17. okt.) er um að HBO-fjölmiðlunarrisinn ætli að taka hér upp þáttaröð í vetur og þar ráði úrslitum 35% endurgreiðsla af framleiðslukostnaði sem fellur til við þáttagerðina í landinu.

Í löngu viðtali er rökstutt hve svona hátt endurgreiðsluhlutfall sé hagkvæmt, það skipti sköpum fyrir þessa atvinnustarfsemi hér. Þá sé „algert bull og vitleysa“ að endurgreiðslan vegi að innlendum kvikmyndaiðnaði, styrkir til hans séu ekki lækkaðir vegna hennar.

Oft birtast í fjölmiðlum langar útlistanir um hve gott sé að endurgreiða kostnað stóru risanna í kvikmyndaheiminum. Hér séu gífurlegir þjóðarhagsmunir í húfi, án hárra endurgreiðslna raskist samkeppnishæfnin og bitarnir fari til annarra. Ekkert jafnast á við ljómann sem stafar af frægum kvikmyndastjörnum.

Sýn hefur haft umboð til að sýna efni frá HBO hér á landi, frábæra verðlaunaþætti eins og Succession. Upptaka á fjórðu þáttaröðinni stendur nú yfir í New York. Verður hún væntanlega frumsýnd á næsta ári.

IhbndexHBO ryður sér jafnframt rúms sem streymisveita í samkeppni við Netflix og aðrar slíkar. Við getum ekki náð HBO í venjulegu streymi og skildi fyrirtækið Ísland út undan með fáeinum öðrum Evrópulöndum á þessu ári. Allt er óljóst um hvenær HBO þóknast að selja Íslendingum þessa þjónustu sína.

Í fréttum Morgunblaðsins í morgun um ánægju HBO yfir að fá svona háa endurgreiðslu frá íslenskum skattgreiðendum kemur ekki fram hvort í samningum við fyrirtækið sé knúið á um að það veiti Íslendingum sömu streymisþjónustu og öðrum Evrópuþjóðum.

Menningarmálaráðherra er réttilega mikið í mun að knýja á um virðingu fyrir íslenskri tungu í heimi snjalltækja og hvers kyns rafrænna miðla. Sú spurning vaknar hvort í þeirri sókn megi ekki huga að því að binda 35% endurgreiðsluna því skilyrði að framleiðandi kosti íslenska textun á efni sínu.

***

Hér var bent á að Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fór með rangt mál þegar hún sagði Venesúelabúa koma hingað beint „að vestan“. Þess vegna væri ekki undarlegt að svo margir þeirra óskuðu hælis hér. Gunnlaugur Auðunn Júlíusson segir á Facebook-síðu sinni í dag:

„Mér fór eins og Njáli forðum að ég þurfti að hlusta á það þrem sinnum, svo rétt væri hermt, þegar stjórnandinn í Silfrinu [þætti á RÚV] í gær spurði hvort ástæða þess að fólk frá Venesúela flykkist til Íslands væri ekki landfræðileg lega Íslands.

Það væri nefnilega styttra frá Venesúela til Íslands en frá Venesúela til margra annarra Evrópulanda.

Ég veit ekki hvort þeir sem spyrja svona séu vísvitandi að rugla umræðuna eða hvort almenn kunnátta þeirra í landafræði sé ekki betri en þetta?

Hvorugt er gott að mínu mati.

Flestir þeirra sem koma hingað frá Venesúela millilenda á Spáni á ferðinni til Íslands samkvæmt því sem komið hefur fram hjá ráðuneyti útlendingamála!!

Þannig er nú það.“

Fréttastofu RÚV er tíðrætt um hræðsluáróður þegar skýrt er frá þróun útlendingamála hér. Orðið er einkum notað gegn dómsmálaráðherra í spurningum fréttamanna. Svo grípa fréttamennirnir til blekkingaáróðurs Helgu Völu í spurningum um komu Venesúelabúa til landsins