14.7.2018 13:59

Hátíð í París – siðareglur þvælast fyrir Trump

Í fyrra stóð Donald Trump Bandaríkjaforseti við hliðina á Emmanuel Macron Frakklandsforseta á heiðurspallinum á Concorde-torgi 14. júlí.

Frakkar halda þjóðhátíðardag sinn, 14. júlí, hátíðlegan á glæsilegri hátt en aðrar vestrænar þjóðir. Aðstaðan til að sýna franska herinn á breiðgötunni Champs-Élysées er einstök með Sigurbogann efst og Place de la Concorde neðst. Á Concorde-torgi standa forseti lýðveldisins og önnur fyrirmenni á heiðurspalli.

Xvmd2935a18-874c-11e8-b8b4-8c07df39ac28-805x453Emmanuel Macron Frakklandsforseti í fylkingarbrjósti hersýningarinnar á Champs-Élysées.

Í fyrra stóð Donald Trump Bandaríkjaforseti við hliðina á Emmanuel Macron Frakklandsforseta á heiðurspallinum. Vildi Trump að sambærileg hersýning yrði á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, 4. júlí, í Washington. Af því hefur ekki orðið. Bretar lögðu hins vegar áherslu á að taka á móti Trump með pompi og prakt, skrautbúnum hermönnum og hljómsveit þeirra, þegar hann heimsótti Blenheim-höll og Windsor-kastala á fimmtudag og föstudag.

Í bresku blöðunum í dag (14. júlí) er fundið að því að Trump hafi sýnt Elísabetu II. (92 ára) óvirðingu með því að láta hana bíða eftir sér í 12 mínútur í 27 stiga hita í Windsor-kastalagarðinum. Bent er á að drottningunni hafi ekki verið skemmt vegna tafarinnar og hún hafi meðal annars litið á klukkuna á meðan hún beið eftir Trump og Melaniu.

4e358f2c00000578-5952671-the_american_leader_then_broke_with_tradition_by_refusing_to_bow-a-14_1531571510363Þá hafi Trump brotið konunglegar siðareglur með því að taka innilega í hönd drottningar í stað þess að hneigja sig fyrir henni. Segir Daily Mail að sem betur fer hafi Trump ekki notað „krafta-handartakið“ sem sé svo frekjulegt að það hafi einu sinni skilið eftir far á hendi Emmanuels Macrons. Melania hafi einnig tekið í hönd drottningar í stað þess að sýna hefðbundna kurteisi.

Verst hafi forsetinn þó hlaupið á sig þegar honum var boðið að ganga við hlið drottningar og skoða heiðursvörð hermannanna. Á myndskeiði megi sjá að forsetinn sneri baki í drottninguna og hóf að ganga á undan henni fram hjá heiðursverðinum, þetta hafi verið alvarlegt brot á siðareglum. Drottningin ýtti við forsetanum og þau gengu síðan samhliða. Sjá hér 

 _102520283_mediaitem102518252

Meðfylgjandi mynd var tekin af forsetahjónunum inni í Windsor-kastala þegar drottning sýndi þeim húsakynni sín á leið til salarins þar sem þau drukku saman te. Athygli er vakin á innilegu brosi Trumps og er það talið sanna að æðsti draumur hans um árangur Bretlandsheimsóknarinnar hafi ræst – hann eigi mynd af sér með Elísabet II.

Á morgun keppa Frakkar við Króatíumenn í Moskvu um heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu. Búist er við miklum mannfjölda á Champs-Élysées í tengslum við leikinn. Vinni Frakkar fer allt á annan endann um allt Frakkland. Knattspyrnuáhugamaðurinn Emmanuel Macron verður þó í Moskvu og fylgist með leiknum þar með konu sinni Brigitte og Lauru Flessel íþróttamálaráðherra. Frakklandsforseti ætlar einnig að eiga orðastað við Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem býr sig undir að hitta Trump í Helsinki mánudaginn 16. júlí. Þeir ræða kannski fast handartak Bandaríkjaforseta?