13.6.2023 9:56

Harry prins og Páll skipstjóri

Gögnum úr síma Páls var stolið á meðan hann lá meðvitundarlaus á Landspítalanum eftir byrlun í maí 2021. 

Harry Bretaprins, hertogi af Sussex, dró að sér athygli tvo daga í liðinni viku þegar hann bar vitni fyrir dómara í London í máli sem hann höfðaði gegn útgefandanum Mirror Group Newspapers (MGN) fyrir ólögmæta öflun upplýsinga. Prinsinn hóf málaferlin árið 2019 með ásökunum um að brotist hefði verið inn í síma hans og afritað efni af honum. MGN gefur meðal annars út blöðin Daily Mirror, Sunday Mirror og Daily Express.

Margir breskir fjölmiðlamenn bregðast mjög illa við því að Mirror Group sé sótt til saka. Prinsinn ætti að virða þá óskráðu reglu konungborinna að fara aldrei fyrir dómstóla: Kvartið aldrei, útskýrið ekkert.

Julie Burchill, rit- og dálkahöfundur, segir í The Spectator að fyrir hertoganum Sussex vaki að breyta blaðamennsku í PR-starf, blaðamenn verði almannatenglar. Hún spyr hins vegar: Hvað er heilagur Georg án drekans? Eða prins sem leikur sér án eiturtungna í fjölmiðlum?

TASHED_Harry-Crusade_SE_FORF1Þ:essi mynd birtist í The Spectator og á að sýna Harry prins í herför sinni gegn breskum fjölmiðlum.

Kolbrún Bergþórsdóttir fagnar þessari dramatík í bresku konungsfjölskyldunni í ljósvakapistli í Morgunblaðinu í dag (13. júní): „Hér á landi er engin svona fjölskylda. Allt er slétt og fellt, sem er ekki nógu skemmtilegt.“

Það er rétt hjá Kolbrúnu að okkur skortir konungsfjölskyldu. Við eigum hins vegar margt annað sem gleður fjölmiðlamenn. Má þar til dæmis nefna pólitíska hneykslismálið í Namibíu sem hér á landi er gjarnan nefnt Samherjamálið til að sverta stórfyrirtækið.

Anga þessa máls, sem hófst í Kveik ríkissjónvarpsins í nóvember 2019, má sjá víða. Þegar rýnt er í gang þess ber margt undarlegt fyrir augu. Greinargóða lýsingu á óvæntustu hlið þess má heyra í netheimum núna.

Þáttagerðarmaðurinn Frosti Logason ræddi lengi við Pál Steingrímsson, skipstjóra hjá Samherja, og lögmann hans Evu Hauksdóttur í þætti sem fór í loftið að morgni mánudags 12. júní á brotkast.is.

Gögnum úr síma Páls var stolið á meðan hann lá meðvitundarlaus á Landspítalanum eftir byrlun í maí 2021. Upp úr þeim gögnum voru svo unnar fréttir á vefsíðunum Kjarnanum og Stundinni.

Af frásögn Páls má ráða að í höfuðstöðvum ríkisútvarpsins við Efstaleiti hafi verið brotist var inn í síma Páls og hann afritaður.

Páll sagði að byrlunarmálið hefði sinn gang hjá lögreglu. Honum var ofarlega í huga staða íslenskra blaðamanna. Skipulögð þöggun um mál hans og ítrekaðar tilraunir til að afflytja staðreyndir.

Kjarninn og Stundin (nú Heimildin) hönnuðu skæruliðadeild innan Samherja og sögðu henni beitt gegn sér. Páll og samstarfskona hans notuðu orðið um sífelldar eigin kvartanir innan Samherja um að fyrirtækið svaraði ekki fyrir sig. – Kannski gildir konunglega þagnarreglan þar? Blaðamennirnir gerðu sjálfa sig að fórnarlömbum og Blaðamannafélagið hlóð á þá verðlaunum. Enginn íslenskur fjölmiðill hefur enn haft þrek til að lýsa þessum þætti þessa máls. Bloggarinn Páll Vilhjálmsson hefur haldið lesendum sínum upplýstum og hlotið dóm í máli blaðamanna gegn honum fyrir orðalag í frásögn hans. Vissulega er ekkert skemmtilegt við þetta mál. Er þess vegna þagað um það í fjölmiðlum hér?