1.10.2017 11:41

Harka og óbilgirni einkenni ESB

Þótt ólíku sé saman að jafna líta ráðamenn ESB atburðina í Katalóníu sömu augum og það sem gerðist í Grikklandi. Sýna verði fyllstu hörku því að annars sé gefið fordæmi sem geti dregið dilk á eftir sér í öðrum löndum.

  • 102

Atli Harðarson hefur skrifað greinaflokk í Morgunblaðið undanfarið um þróun mála í Grikklandi frá því að þjóðin var tekin í gíslingu til að standa undir hverju „neyðarláninu“ eftir öðru. Lánum sem Grikkjum var skyldað að taka fyrir tilstuðlan framkvæmdastjórnar ESB, seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þríeykisins.

Atli dregur fram staðreyndir þessarar hrikalegu samtímasögu og setur þær í samhengi við þróunina almennt innan Evrópusambandsins og það ríkjandi viðhorf þar að beita verði þvingunum og valdi til að halda sambandinu starfhæfu.

Atli nefnir að verði hlutafélag  gjaldþrota standi eigendur þess ekki berskjaldaðir gagnvart lánardrottnum með allar eignir sínar að veði, það sé aðeins gengið að eignum hlutafélagsins. Örlög Grikkja eru allt önnur. Þeir sitja uppi með allar skuldir sem stofnað var til af öðrum – þýskir og franskir bankar áttu mest undir.

Minnumst þess að hefðu ekki verið teknar ákvarðanir með neyðarlögum hér fyrir réttum níu árum eða risið gegn áformum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um greiðslu Icesave-skuldanna hefðum við Íslendingar hæglega lent í sömu stöðu og Grikkir. Aðild að ESB hefði örugglega sett okkur í þessa stöðu.

Harkan gegn Grikkjum átti öðrum þræði að verða evru-þjóðunum almennt víti til varnaðar. Þær skyldu átta sig á alvöru þess að lenda í „klónum“ á þríeykinu.

102Á baráttufundi Katalóníumanna í Barecelona, gamla konan er 102 ára. Sjálfstæðisfáni Katalóníu sést einnig á myyndinni en hvít stjarna á bláum grunni er tákn sjálfstæðisins.

Katalóníumenn ganga í dag til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Spáni. Allt er gert af hálfu spænskra yfirvalda til að koma í veg fyrir að þeir fái að lýsa vilja sínum um þetta efni enda brjóti það í bága við stjórnarskrá Spánar.

Víða um Evrópu líta forystumenn sem berjast fyrir sjálfstæði einstakra héraða til Katalóníu í von um að þar verði til sjálfstæðisbylgja sem flæði yfir Evrópusambandið. Á leiðtogafundi ESB í Eistlandi fyrir tveimur dögum naut harðlínustefna Marianos Rajoys, forsætisráðherra Spánar, eindregins stuðnings.

Þótt ólíku sé saman að jafna líta ráðamenn ESB atburðina í Katalóníu sömu augum og það sem gerðist í Grikklandi. Sýna verði fyllstu hörku því að annars sé gefið fordæmi sem geti dregið dilk á eftir sér í öðrum löndum.

Harka ESB í Brexit-viðræðunum er sama marki brennd. Þjóðir skulu flæmdar frá hugmyndinni um að segja skilið við ESB með hótunum um að þær flækist í slíku neti skulda og vandræða að þær losni aldrei.

Allt er þetta til marks um að Evrópusambandið snýst hraðar en áður í andhverfu sína, Bilið milli vilja fólksins og fyrirmæla elítunnar stækkar og verður að lokum óbrúanlegt.