18.10.2025 11:31

Halla kemur heim frá Kína

Frásagnirnar af Kínaferð Höllu eru að nokkru eins og frá öðrum hnetti þegar farið er hástemmdum orðum um gildi samræðna og samstarfs.

Sex daga heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta Íslands til Kína lauk föstudaginn 17. október. Opinbert tilefni hennar var 30 ára afmæli kvennaráðstefnu í Peking.

Ekki er unnt að leggja að jöfnu Kína 1995 og Kína núna á alþjóðavettvangi, hernaðarlega og efnahagslega.

Þá sátu við stjórnvölinn í Kína menn sem vissulega stjórnuðu í skjóli einræðis Kommúnistaflokks Kína en án alræðisvalda, menn sem urðu að hlíta reglum um regluleg skipti í toppstöðum.

Nú hefur Xi Jinping hins vegar tekið sér alræðisvald og skipað sjálfan sig stjórnanda flokks og þjóðar að elífu. Hann fetar þar í fótspor Maós formanns og leiðtoga kínverskra kommúnista við valdatökuna árið 1949. Maó er í heiðri hafður í Kína innan þeirra marka að hann eða minning hans skyggi ekki á Xi.

Halla Tómasdóttir móðgaði Xi greinilega ekki með því að minnast á Maó í ræðu sinni á kvennaráðstefnunni. Íslenskir fjölmiðlamenn sem voru í fylgd Höllu færa okkur fréttir um að vel hafi farið á með henni og Xi og nú á forseti Kína heimboð til Íslands.

Heimsokn-til-kina-6Xi Jinping og Halla Tómasdóttir ræða sama i Höll alþýðunnar í Peking 14. október 2025 (mynd: forseti.is).

Enginn íslenskur forseti hefur lagt sig eins mikið fram við að rækta sambandið við Kína og Ólafur Ragnar Grímsson sem stendur einmitt þessa dagana fyrir enn einu hringborði norðurslóða í Hörpu. Dagskrá þess mikla ráðstefnuhalds hefur breyst í samræmi við gjörbreytt samskipti ríkja vegna innrásar og stríðs Rússa í Úkraínu, með dyggum stuðningi Kínverja.

Norðurslóðir eru ekki lengur lágspennusvæði heldur leikvöllur kjarnorkuvelda þar sem spenna magnast og hernaðarlegur viðbúnaður vex ár frá ári. Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessu þótt íslensk stjórnvöld haldi um of að sér höndum við þátttöku í aðgerðum til að styrkja og efla varnarviðbúnað.

Áform sem Danir hafa kynnt um aukinn hernaðarlegan styrk sinn á Grænlandi og við gæslu öryggis á Norður-Atlantshafi eru í raun ævintýraleg og hafa aldrei verið jafn umfangsmikil. Er einkennilegt að hvorki heyrist hósti né stuna opinberlega frá íslenskum stjórnvöldum til að fagna og styðja í verki við þetta danska framtak.

Frásagnirnar af Kínaferð Höllu eru að nokkru eins og frá öðrum hnetti þegar farið er hástemmdum orðum um gildi samræðna og samstarfs. Í Morgunblaðinu í dag (18. október) er þetta haft eftir forseta Íslands:

„Ég ræddi við forseta Kína um mikilvægi þess að þjóðir standi saman vörð um að búa í heimi sem lýtur alþjóðlegum lögum og reglum og þeirri regluskipan sem var komið á til að tryggja frið og öryggi.“

Kínversk stjórnvöld með Xi í fararbroddi beita sér markvisst gegn því sem þarna er kölluð „regluskipan“ alþjóðamála. Kínverjar segjast ekki sætta sig við hana enda hafi hún verið mótuð fyrir valdatöku kommúnista 1949. Kínverjar gera Pútin kleift að halda úti hernaði gegn Úkraínu sem er í andstöðu við alþjóðalög.

Kínversk stjórnvöld leita allra leiða til að ná fótfestu hér á norðurslóðum og halda dauðahaldi í einokun sína á rannsóknum í háloftanjósnastöð á Kárhóli í Þingeyjarsýslu með blessun íslenska utanríkisráðuneytisins.