25.10.2018 9:22

Hálfhvumsa þingmaður vegna orðræðu

Af orðum Hildar má ráða að hún gangi að því sem vísu að einhverjum í þingsalnum eða annars staðar þyki ámælisvert að hún hreyfi þessum sjónarmiðum.

Hildur Sverrisdóttir situr nú á þingi sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði í ræðu í þingsalnum miðvikudaginn 24. október:

„Undanfarið hef ég fylgst með orðræðu núverandi verkalýðsforystu vegna komandi kjarasamninga og orðið hreint út sagt hálfhvumsa við. Þar eru boðaðar byltingar með blótsyrðum sem ekki er hægt að hafa eftir í pontu Alþingis og fólki brigslað um sálarleysi og annarlegar hvatir ef það leyfir sér að viðra önnur sjónarmið en þar eru boðuð. En það verður að mega ræða alla vinkla í samhengi þessa mikilvæga máls. Það verður til að mynda að mega ræða það sem kemur fram í Fréttablaðinu  í dag, að launakostnaður skráðra félaga hefur almennt vaxið hraðar en tekjur og rekstrarhagnaður félaganna. Það verður að mega ræða að aðstoðarseðlabankastjóri og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands segir það lögmál að raunlaun geti ekki til lengdar hækkað meira en framleiðniaukning.

Þessi sjónarmið verða að mega heyrast því að þau skipta máli í samhengi hlutanna svo skrefin sem stigin verða næstu mánuði leiði okkur ekki í ógöngur. Það verður því að vera lágmarksvirðing fyrir því í umræðunni að þótt tekist sé á um leiðirnar erum við sammála um markmiðin, að gera eins vel og hægt er fyrir okkur öll. Upphrópanir um illsku og annarlegar hvatir eru bæði vondar og óþarfi og halda ekki á lofti mikilvægi réttindabaráttu.“

Af orðum Hildar má ráða að hún gangi að því sem vísu að einhverjum í þingsalnum eða annars staðar þyki ámælisvert að hún hreyfi þessum sjónarmiðum.

B1E7540FBDC20B19437AF0AEA817ACD838319482D1A8EE1D35703018080D5134_713x0Þessi mynd af Hildi Sverrisdóttur í ræðustól alþingis britist á sínum tíma á visir.is

Kröfur þöggun birtast í ýmsum myndum og þar hafa sósíalistarnir Gunnar Smári Egilsson og Sólveig Anna Jónsdóttir skipað sér á sérstakan stað eftir að upplýst varð um að Sólveig Anna lét fjármálastjóra Eflingar fara í veikindaleyfi þegar hún vildi gæta allra reglna við greiðslur til eiginkonu Gunnars Smára. Dónaskapur Gunnars Smára í garð fjármálastjórans fór út yfir öll mörk en Sólveig Anna lyfti ekki litla fingri henni til varnar.

Hildur Sverrisdóttir kann að óttast svipaðar svívirðingar frá Gunnari Smára og Sólveigu Önnu vegna orða sinna í ræðustól alþingis. Brottvikning fjármálastjóra Eflingar og árásir Gunnars Smára höfðu þann tilgang að hræða aðra frá því að segja skoðun sína á vinnubrögðum sósíalistanna. Árum saman hefur Gunnar Smári birt óhróður um einstaklinga en jafnan þegar vikið er að ámælisverðri framgöngu hans sjálfs umturnast hann og missir stjórn á heift sinni.

Nú stendur þing Alþýðusambands Íslands. Skyldi þessi heiftarandi sósíalista eiga upp á pallborðið þar?