21.1.2024 10:15

Haley vegur að dómgreind Trumps

Á lokadögum kosningabaráttunnar í New Hampshire beinir Haley, sem var fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í forsetatíð Trumps, athygli að andlegu atgervi Trumps.


Donald Trump sigraði með yfirburðum í forkosningum repúblikana í Iowa á dögunum þegar tekist var á um hver ætti að verða forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum 5. nóvember í ár.

Þriðjudaginn 23. janúar verða forkosningar í New Hampshire. Þær eru með öðru sniði en í Iowa þar sem aðeins repúblikanar komu að vali frambjóðandans og gerðu það á opnum flokksfundum. Í New Hampshire er opið prófkjör eins og sagt er, það er fleiri geta kosið en flokksbundnir repúblikanar.

Nikki Haley varð þriðja í Iowa en gerir sér vonir um betri árangur í New Hamapshire. Höfðar hún til breiðari hóps kjósenda en Trump og er jafnvel talin sigurstranglegri en hann gegn Joe Biden kæmi til slíkra átaka sem þykir ólíklegt, allt getur þó enn gerst.

100143654Nikki Haley.

Á lokadögum kosningabaráttunnar í New Hampshire beinir Haley, sem var fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í forsetatíð Trumps, athygli að andlegu atgervi Trumps.

Joe Biden sætir stöðugri gagnrýni Trumps fyrir að vera orðinn of gamall og andlega slitinn til að gegna forsetaembættinu. Biden er 81 árs. Nú beinir Haley athygli kjósenda að aldri Trumps og dómgreind.

Hún fékk ástæðu til þessarar gagnrýni á Trump eftir hann átaldi Nikki Haley á kosningafundi föstudaginn 19. janúar fyrir að hafa ekki stöðvað áhlaupið á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021.

Allt bendir til þess að Trump hafi ruglað saman Nikki Haley og þáverandi forseta fulltrúadeildar þingsins, Nancy Pelosi.

Á kosningafundinum 19. janúar sagði Trump:

„Nikki Haley ber ábyrgð á örygginu. Við buðum henni 10.000 menn – hermenn, þjóðvarðliða eða hvað sem hún vildi – og þau afþökkuðu. Þau vilja ekki ræða það.“

Laugardaginn 20. janúar benti Haley á að hún hefði ekki borið neina ábyrgð á öryggi þinghússins eða þingsins. Hún gegndi þá engu opinberu embætti. Í forsetaembættið mætti ekki velja neinn sem ekki hefði andlega getu til að gegna því undir miklum þrýstingi.

Fréttaskýrendur segja að til þessa hafi enginn keppnauta Trumps í forvalinu gagnrýnt dómgreind Trumps og andlega getu á svo beinskeyttan hátt.

Fyrir utan að fara rangt með nafn þingforsetans liggur ekki neitt fyrir um að Trump hafi boðist til að senda allt að 10.000 manns til að verja þinghúsið. Hann flutti á hinn bóginn hvatningarræðu til áhlaupsmanna.

Kannanir benda til að Trump sigri í New Hampshire!