Hagsmunir Trumps og Pútins
Smáþjóðir hafa treyst á virðingu fyrir þessum alþjóðalögum og þeim stofnunum sem starfa á grundvelli þeirra.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði í Kastljósi fimmtudaginn 27. mars að við værum á gráu svæði milli stríðs og friðar þegar litið væri til ástandsins í öryggismálum.
Rætt var við ríkislögreglustjóra í tilefni af vel heppnaðri og fjölsóttri ráðstefnu sem embættið bauð til þennan sama dag þar sem kallaðir voru saman fulltrúar þeirra borgaralegu stofnana sem gegna lögbundnu hlutverki í þágu öryggis þjóðarinnar.
Frá ráðstefnu ríkislögreglustjóra um öryggismál á Hótel Natura 27. mars 2025 (mynd: mbl.is/Karitas).
Verkefni þeirra og ábyrgð taka á sig breytingum í takti við breytingar á alþjóðavettvangi. Í Evrópu er háð styrjöld. Evrópuþjóðir innan NATO stíga markviss skref af vaxandi þunga til að láta að sér kveða gegn ofríki og útþenslustefnu Rússa hvað sem líður stefnu Bandaríkjastjórnar undir forsæti Donalds Trump.
Í okkar heimshluta, á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, ríkir vaxandi óvissa vegna framgöngu Trumps gagnvart Grænlendingum og Dönum. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu miðvikudaginn 26. mars var Trump spurður hve langt hann myndi ganga til að fá Grænland og hann svaraði:
„Ég held að við munum ganga eins langt og okkur er nauðsynlegt að ganga.“
Hann sagði einnig:
„Danmörk neyðist til að láta okkur fá Grænland.“
Fimmtudaginn 27. mars flutti Vladimir Pútín Rússlands ræðu á rússneskri norðurslóðaráðstefnu í Múrmansk. Hann vék að áformum Trumps gagnvart Grænlandi. Pútin nefndi Ísland til sögunnar, Trump kynni einnig að ásælast það.
Pútin gagnrýndi að NATO kynni að nota norðurslóðir sem stökkpall til að ógna Rússlandi og þess vegna yrði hervæðingu Norður-Rússlands fram haldið. Pútin fór hins vegar ekki gagnrýnisorðum um landvinningastefnu Trumps. Æ fleiri Danir líkja aðferðum Trumps við það sem gerðist í aðdraganda þess að Pútin innlimaði Krímskaga og hrifsaði hann af Úkraínu árið 2014.
Ræða fréttaskýrendur um að nú sé komið til sögunnar hagsmunabandalag Pútins og Trumps um gagnkvæma viðurkenningu á réttinum til að hrifsa til sín nágrannaríki eða landsvæði þeirra til að láta stórveldisdrauma rætast. Trump virði ekki frekar en Pútin grunnreglur og lög alþjóðasamskipta sem urðu til, ekki síst að frumkvæði Bandaríkjastjórnar, eftir aðra heimsstyrjöldina og hafa stuðlað að friði. Smáþjóðir hafa treyst á virðingu fyrir þessum alþjóðalögum og þeim stofnunum sem starfa á grundvelli þeirra.
Í dag fer bandarísk sendinefnd undir forystu JD Vance varaforseta til bandarísku geimherstöðvarinnar í Pituffik (Thule) á Norðvestur-Grænlandi.
Sama dag og þetta gerist verður mynduð ný fjögurra flokka landstjórn í Nuuk. Þar koma saman fulltrúar flokkanna sem vilja að Grænland verði áfram í danska konungsríkinu miðað við núverandi aðstæður og að Trump hætti að ögra Grænlendingum.
Enginn veit á þessari stundu hvað JD Vance kunni að segja í Pituffik, að Bandaríkjamenn slái eign sinni á landið og bjóði Grænlendingum milljarða?
Á þessu heimssvæði erum við Íslendingar núna – vissulega er það grátt.