7.12.2022 9:39

Hagfellda bankasalan

Úttektarskýrslan hefur orðið tilefni harðra deilna milli ríkisendurskoðanda og stjórnenda bankasýslunnar sem bar ábyrgð á framkvæmd sölunnar.

Eitt mesta pólitíska upphlaup ársins, tilraun stjórnarandstöðunnar með aðstoð fréttastofu ríkisútvarpsins til að flæma fjármálaráðherra úr embætti og sprengja ríkisstjórnina vegna sölunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022 deyr nú hægt og sígandi drottni sínum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis undir formennsku Þórunnar Sveinbjarnardóttur Samfylkingu.

Nefndin ræðir úttekt ríkisendurskoðunar á sölunni. Úttektarskýrslan hefur orðið tilefni harðra deilna milli ríkisendurskoðanda og stjórnenda bankasýslunnar sem bar ábyrgð á framkvæmd sölunnar. Lokapunktur þess ágreinings sýnist snúast um hvenær og hvaða upplýsingar voru færðar í excel-skjal um söluna. Ekkert af þessu fellur að ásökunum og málflutningi stjórnarandstöðunnar og fréttamanna ríkisútvarpsins.

Tímasetning sölunnar tæpum tveimur mánuðum fyrir sveitarstjórnakosningar sýndi að þeir sem ákváðu söludaginn töldu svo sjálfsagt og eðlilegt að ganga til þess verks með hliðsjón af markaðsaðstæðum að ekki þyrfti að huga að pólitískum boðaföllum sem yrðu vegna sölunnar. Þetta reyndist rangt mat þegar litið er til baka. Ónóg kynning vegna sölunnar, skortur á skýringum og varúð með tilliti til almennings eru réttmæt gagnrýnisatriði.

Fyrstu viðbrögð bankasýslunnar þegar gagnrýni á söluna komst í hámæli sýndu að áætlanir vegna sölunnar höfðu ekki snúið að því hvernig svara skyldi andmælum á skipulegan hátt. Að hugað sé að þessum þætti við töku stórákvarðana verður sífellt mikilvægara á tímum upplýsingafalsana og upplýsingaóreiðu.

1381723Guðmundur Björgvin Helgason á fundi stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar alþingi (mbk.is/Eggert Jóhannesson).

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (7. desember) er lagt út af fréttum af því sem fram kom í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis mánudaginn 5. desember þegar Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi kom fyrir nefndina öðru sinni. Nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Hildur Sverrisdóttir, spurðu annars vegar um það hvers vegna ekki væri áréttuð betur sú niðurstaða skýrslunnar að bankasalan hefði verið ríkissjóði hagfelld og hins vegar um áhersluna á„excel-klúðrið“ þótt það hefði ekki haft nein áhrif á lokaniðurstöðu sölunnar.

Ríkisendurskoðandi sagði skýrsluna ekki fjalla um niðurstöðuna heldur ferðalagið til hennar. Lesa þurfi skýrsluna „með góðum skammti af sköpunargáfu til að lesa það út að þetta sé meginniðurstaða skýrslunnar“. Að salan hefði verið hagfelld væri „fyrirvari á gagnrýnina sem kemur á ferðalagið …“ sagði ríkisendurskoðandi .

Guðmundur Björgvin sagði að með áherslunni á excel-skjalið væri m.a. sýnt á hve skömmum tíma, nokkrum mínútum, bankasýslan taldi að hún hefði áttað sig heildareftirspurninni. Þetta væri „eins og að fara með rangt barn heim af róló og kynna það áfram fyrir fjölskyldu og vinum sem sitt barn“.

Leiðara Morgunblaðsins lýkur á þessum orðum:

„Ekki verður séð að yfirferðin um skýrsluna þurfi að vera lengri og hefði dugað að benda á að ekki sé dregið í efa að bankasalan hafi verið hagfelld, hvað sem ferðalaginu leið. Einkum eftir að barnsránið á róló gekk eftir“