Hafna verður skortsstefnu Samfylkingarinnar
Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa forystu um að brotist verði með lagasetningu undan hafstastefnu lóðaskortsins á höfuðborgarsvæðinu.
Vilhjálmur Bjarnason, fyrrv. alþingismaður, spyr í Morgunblaðinu í dag (1. nóv.) um hvað verði kosið laugardaginn 30. nóvember. Tíu listar verða í framboði um land allt og einn í einu kjördæmi. Sæmilegur friður virðist hafa orðið um val á listana nema innan Samfylkingarinnar. Ágreiningur þar birtist í opinberri útskúfun formannsins Kristrúnar Frostadóttur á Degi B. Eggertssyni og í tali á bak við tjöldin um að Kristrún hafi bolað Guðmundi Árna Stefánssyni, varaformanni flokksins, af listanum í SV-kjördæmi þar sem hann ætlaði sér 1. sæti en hvarf frá því.
Vilhjálmur ræðir þetta ekki í grein sinni heldur segir að ekki sé augljóst um hvað verði kosið. Hann segir þó víst að vinstri hliðin muni „leggja til verulegar skattahækkanir á þá sem þegar borga skatta. Og ráðstafa andvirðinu eftir eigin vitsmunum“.
Þá segir Vilhjálmur réttilega að ástæðan fyrir verðhækkunum á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu sé skortur. Það sé lítið byggt og of lítið fyrir náttúrulega fjölgun og aðstreymi. Ástæðu skortsins megi „rekja til svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins sem gert var 2014-2015 en þar [hafi] ákveðin vaxtarmörk svæðisins [verið] dregin upp og ákveðið að öll byggðin yrði að vera innan þessara marka“. Fólki hafi hins vegar fjölgað langt umfram allar spár og nú standi „Reykjavíkurborg með Samfylkinguna í forystu gegn því að svæðið verði stækkað þrátt fyrir óskir nágrannasveitarfélaganna“.
Vilhjálmur lýkur þessum kafla greinar sinnar á þessum orðum:
„Höfundur skortsins er Samfylkingin í Reykjavík.“
Kristrún Frostadóttir fór í vikunni á Egilsstaði og boðaði framkvæmdablan Samfylkinngarinnar - flokksins sem skapað hefur lóðaskortinn á höfuðborgarsvæðinu og hefur höfund hans næstan Kristrúnu á framboðslista (mynd: vefsíða Samfylkingar).
Þetta er hárrétt og tímabær ábending um ábyrgðarflokk skortsins á fasteignamarkaði. Samfylkingin megnaði þetta þó ekki ein í Reykjavík. Hún hefur notið stuðnings borgarfullltrúa Pírata, Viðreisnar, VG og Framsóknarflokksins. Undir forystu Dags B. hafa borgarfulltrúar allra þessara flokka stutt skortsstefnuna í húsnæðismálum og þeir sem eru lengst til vinstri hafa einnig unnið að skortsstefnunni í orkumálum, til dæmis á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur (OR).
Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa forystu um að brotist verði með lagasetningu undan hafstastefnu lóðaskortsins á höfuðborgarsvæðinu. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt og vinnur gegn markmiðinu um að halda verðbólgu í skefjum að Samfylkingin noti meirihlutaaðstöðu sína í Reykjavík til að skipuleggja lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn fylgja fram stefnu sinni um að minnka spennuna að baki verðbólgunni verður hann að takast á við húsnæðisskortinn og til þess þarf að afnema lóðahöft Samfylkingarinnar.
Sé skortur á kosningamálum liggur beinast við að huga að undirrótum skortsins í íslensku samfélagi og boða aðgerðir gegn honum.
Hér hefur lóðaskorturinn verið nefndur. Hvað með orkuskortinn? Hver boðar bestu úrræðin til að sigrast á honum? Eða skortinn sem birtist í biðlistunum – til dæmis í heilbrigðiskerfinu? Í lokin skal enn vitnað í grein Vilhjálms:
„Þó verður ekki fram hjá því litið að stjórntækið „biðlisti“ er enn við lýði í heilbrigðiskerfinu. Kvöl ætti ekki að vera í boði þegar kostur er á lækningu.“