24.8.2018 9:51

Hættuleg kreddukenning í heilbrigðismálum

Kreddukenningar sósíalista eru úreltar í heilbrigðismálum eins og annars staðar.

Á meðan Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra heldur uppi vörnum fyrir að sjúklingar fái ekki 1,2 m. kr. úr sjúkratryggingum til að fara í mjaðmaraðgerð í Klíníkinni við Ármúla en fái 3,5 m. kr. frá sjúkratryggingum til að fara í aðgerðina í Svíþjóð sannast að fylgt er glórulausri stefnu við ráðstöfun skattfjár til heilbrigðismála.

Fyrir þessari afstöðu ráðherrans eru engin skynsamleg rök heldur ræðst hún af „pólitískri kreddu“ eins og Leifur Aðalsteinsson segir í Morgunblaðinu í dag (24. ágúst).

Leifur Aðalsteinsson segir:

„Heilbrigðisráðherra stendur á því eins og hundur á hörðu roði að ekki megi skipta við þetta fyrirtæki [Klínikina]. Það er alveg glórulaus afstaða. Það er líka misskilningur að Sjúkratryggingar neiti að semja við Klíníkina, stjórnendur þar vilja gjarnan spara fjármuni ríkisins en það eru ráðamenn sem stoppa það af. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gæti kippt þessu í liðinn með einu pennastriki.“

Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrv. sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og alþingismaður, fór nýlega til Svíþjóðar og lýsti svipuðum viðhorfum og Leifur við heimkomu sína.

A31b14_e322b11e05364ba9bc51543a8d2cca67-mv2_d_3264_2448_s_4_2

Eitt er að þessi kredda bitni á sjúklingum á þann veg sem Leifur Aðalsteinsson lýsir þegar hann segir:

„Biðin í eitt til eitt og hálft ár eftir aðgerð er glórulaus og algerlega óásættanleg. Ég var með kvölum, veigraði mér við að fara á mannamót og fannst ég vera að einangrast heima. Þetta er mín saga og hundraða annarra Íslendinga.“

Hitt er að stefnan leiðir einnig til þess að fæla vel menntaða, íslenska sérfræðilækna frá að snúa aftur heim eins og Sigurður Björnsson læknir lýsti vel í grein í Morgunblaðinu 4. ágúst þar sem sagði meðal annars:

„Því er ekki unnt að hugsa þá hugsun til enda ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki. Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.“

Kreddukenningar sósíalista eru úreltar í heilbrigðismálum eins og annars staðar. Vítin eru til að varast: lítið til Venesúela, ríkasta land S-Ameríku á vonarvöl vegna ný-marxisma.