Hæsta öryggisstig í París
Ákvörðunin um að setja leikana án sérstakrar öryggisgæslu við innganga á leikvang skapar áður óþekkt verkefni fyrir þá sem gæta öryggis íþróttamanna og áhorfenda.
Í Le Figaro segir að morgni föstudagsins 26. júlí að heimildarmenn innan öryggislögreglunnar segi að skemmdarverkið sem unnið var á franska hraðlestarkerfinu (TGV) nokkrum klukkustundum áður en Ólympíuleikarnir hefjast formlega í París beri handbragð öfgasinnaðra vinstrisinna.
Liður í aðgerðunum var að bera eld að mannvirkjum eins og öfgamenn til vinstri hafa gerst sekir um í Frakklandi að sögn öryggisyfirvalda. Þau vinna að því að upplýsa það sem gerðist í „samhæfðum aðgerðum“ til að lama lestarkerfið. Hraðlestir, TGV og Eurostar, voru sérstakt skotmark og í Bretlandi er fólki ráðlagt að reyna ekki að nota Eurostar til að ferðast til Parísar.
Þaulhugsað skemnmarverk raskaði lestarferðum í Frakklandi á setningardegi Ólympíuleikanna.
Árásin var þaulhugsuð því að eldar voru kveiktir á tengistöðvum þar sem unnt var að loka fyrir tvær brautir í kerfinu. Strax á fyrstu klukkutímunum trufluðust ferðir um 800.000 farþega og talið er líklegt að lestarkerfið verði ekki komið í lag fyrr en eftir helgi.
Talið er að 300.000 manns komi saman í dag í París til að fylgjast með setningu Ólympíuleikanna auk erlendra fyrirmenna.
Í beinni sjónvarpsútsendingu í kvöld munu allt að 7.500 íþróttamenn sigla í 85 bátum um sex km niður eftir ánni Signu sem rennur um Parísarborg. Sumarólympíuleikarnir hafa aldrei áður verið settir utan meginvallar frjálsra íþrótta.
Ákvörðunin um að setja leikana án sérstakrar öryggisgæslu við innganga á leikvang skapar áður óþekkt verkefni fyrir þá sem gæta öryggis íþróttamanna og áhorfenda. Skemmdarverkin sem unnin voru í nótt eru vísbending um að illvirkjar líti á leikana sem skotmark sitt frekar en viðburð til að efla traust og frið milli manna og þjóða.
Franski íþróttaráðherrann, Amélie Oudéa-Castera, sagði allt gert til að tryggja að íþróttamenn og aðrir nytu fyllsta öryggis og gætu tekið þátt í setningarathöfninni. Franska stjórnin liti á aðför gegn leikunum sem aðför að Frakklandi.
Fari allt eins og skipulagt hefur verið er þess vænst að mikið verði um dýrðir á setningarathöfninni. Í blaðinu Le Parisien er staðfest að Céline Dion, Lady Gaga og Aya Nakamura komi fram og Dion og Gaga syngi saman eitt af lögum Édith Piaf, líklega La Vie en Rose en Nakamura flytji klassískt lag frá Charles Aznavour.