27.4.2019 18:49

Hælisleitendur á orkupakkafundi

Með því að sækja orkupakkafundinn vildu hælisleitendurnir stofna til samtals við dómsmálaráðherra um einkamál sín.

Frá því er skýrt í vefmiðlum í dag (27. apríl) að hælisleitendur hafi látið að sér kveða á fundi sjálfstæðismanna sem haldinn var í Salnum í Kópavogi um hádegisbilið um þriðja orkupakkann. Frummælendur voru ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og dómsmálaráðherra. Hælsileitandurnir virðast úr hópi þeirra sem setið hafa um dómsmálaráðuneytið undanfarið og einnig tjaldað á Austurvelli í boði borgarstjóra.

Í samvinnu hælisleitenda og Íslendinga í samtökunum No borders er nú gerð hörð hríð að stjórnvöldum að sögn til að bæta hag hælisleitenda og til að koma í veg fyrir að þeim sé brottvísað úr landi. Með því að sækja orkupakkafundinn vildu hælisleitendurnir stofna til samtals við dómsmálaráðherra um einkamál sín og ef til vill annarra sem komið hafa ólöglega til landsins.

1119869Fulltrúar hælisleitenda á Austurvelli.

Á þessum fundi sjálfstæðismanna var Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir, fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar. Hann er kallaður hugbúnaðarhönnuður í frétt á visir.is um atvikið. Vilhjálmur birti myndband af uppákomunni á Facebook- síðu sinni. Í frásögn á síðunni brá Vilhjálmur óvinsamlegu ljósi á viðbrögð Ármanns Kr. Ólafssonar fundarstjóra þega hann bað mennina að hafa sig hæga og virða reglur fundarins sem færi fram á íslensku.

Hér er frásögn mbl.is af því sem gerðist:

„Hælisleitendurnir óskuðu eftir því að fá að spyrja ráðherra spurninga um sín málefni en Ármann bað þá ítrekað um að „fá sér vinsamlegast sæti“. Menn á fundinum tóku málin í sínar eigin hendur og sagði Ármann þá vera lögreglumenn. „Við ætlum ekki að hringja í lögregluna því þessir herramenn þarna eru lögreglan.“

Mennirnir voru þó ekki einkennisklæddir en Ármann segir í samtali við mbl.is að þeir hafi báðir starfað sem lögreglumenn áður fyrr.

„Ég hefði auðvitað átt að taka það fram að þeir væru fyrrverandi lögreglumenn. Mér gekk það eitt til að róa alla og ég gat ekki hugsað mér að fá lögregluna í fullum skrúða inn á fundinn. Þetta gekk einfaldlega út á það að leysa þetta eins rólega og unnt væri.“

Annar mannanna greip í annan hælisleitendanna þegar þeir neita að yfirgefa svæðið og hækkar róminn þegar hann segir: „farðu út núna“.

Ármann segir í myndbandinu að fundinum yrði slitið ef ekki yrði farið eftir settum reglum. Ekki kom til þess og Ármann segir í samtali við mbl.is að mennirnir hafi setið út fundinn og annar talað við hann eftir á. „Sá sem talaði baðst afsökunar á því að hafa notað þennan vettvang svo við skildum í góðu.““

Þessu atviki er haldið hér til haga af tveimur ástæðum:

  1. Það er nýmæli að íslenskir stjórnmálamenn geti ekki haldið opinbera fundi án þess að þeir, fundarstjóri og fundarmenn standi frammi fyrir uppákomu sem þessari. Fundarmenn tóku því ekki vel að gerð var tilraun til að beina fundinum inn á allt aðrar brautir en boðað var og tekið til við að ræða á ensku við framsögumenn. Fundarstjóri hélt vel á málum.
  2. Að fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar sem á sínum tíma barði olíutunnur á Austurvelli skuli verða til þess að gera þetta atvik að fréttaefni og setja í verra ljós en tilefnið leyfir vekur spurningar um hvort andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ætli að beita hælisleitendum fyrir stríðsvagn sinn gegn flokknum. Sé svo er hér ekki um smámál að ræða.