15.11.2023 9:35

Hádegisverður á Lipp

Þrengsli eru töluverð, hvert skot er nýtt fyrir gesti og þjónarnir skáskjóta sér á milli borða. Andrúmsloftið er mettað af góðum mat, samtíð og sögu.

Sé tekin Eurostar hraðlest frá Gare du Midi í Brussel klukkan 10.13 er komið til Gare du Nord í París 80 mínútum síðar. Það er gott að ætla sér tíma til að komast yfir á vinstri bakka Signu frá brautarstöðinni. Greiðfærast er að taka lest neðanjarðar og fórna þannig götulífinu og umferðaröngþveitinu í París. Við völdum þó ferð ofan jarðar og náðum samt í tæka tíð fyrir hádegisverð með vinafólki klukkan 13.00 á sögufrægum veitingastað, Brasserie Lipp, á 151 Boulevard Saint-Germain.

Brasserie er formlegri staður með meira úrval franskra rétta á matseðlinum en bistro þar sem hefðbundnir réttir eru steak-frites, boeuf bourguignon og coq au vin.

Grunninn að matargerðinni á Lipp er að finna í Alsace/Elsass, austast í Frakklandi, við bakka Rínar. Léonard Lipp sem opnaði veitingastaðinn 1880 flúði heimabyggð sína í Alsace eftir að Þjóðverjar innlimuðu hana árið 1871.

Upphaflega kallaði Lipp staðinn Brasserie au Bords du Rhin, kenndi hann við Rínarbakka. Í fyrstu heimsstyrjöldinni varð andúð Frakka á Þjóðverjum til þess að staðurinn hét í nokkur ár Brasserie de Bords, ekki var minnst á Rín. Eftir að stríðinu lauk var veitingahúsið kennt við Lipp.

Á þriðja og fjórða áratugnum varð Lipp samofinn menningarlífi Parísarborgar og öðlaðist frægð út á við vegna þess að menntamenn og rithöfundar eins og Ernest Hemingway, F. Scott Fitzgerald, Gertrude Stein og James Joyce gerðu staðinn frægan.

Lipp er nálægt frönsku öldungadeildinni og fulltrúadeildinni og þar má oft sjá franska þingmenn á milli atkvæðagreiðslna í þingdeildunum. Á okkar tímum áhrifavalda er haft orð á að frægir leikarar og kvikmyndastjörnur leggi leið sína þangað.

Hemingway kom í fyrsta sinn á Lipp sem blaðamaður árið 1921 og varð síðar fastagestur. Honum líkaði best við lauksúpuna. Enn þann dag í dag eru réttir frá Alsace vinsælir á Lipp, súrkál, svínakjöt og pylsur auk þess þykk kjötsúpa með soðnum hrísgrjónum.

Íslenskir mennta- og menningarmenn sem sóttu París heim eftir aðra heimsstyrjöldina minnast oft á Lipp.

Þrengsli eru töluverð, hvert skot er nýtt fyrir gesti og þjónarnir skáskjóta sér á milli borða. Andrúmsloftið er mettað af góðum mat, samtíð og sögu.

Eftir ánægjulegan málsverð var gengið niður að Signu til að líta hana enn einu sinni augum þótt hún væri drungaleg í haustrigningunni. Síðan var haldið aftur til Gare du Nord.

Til Brussel var komið aftur klukkan 18.17.

Myndir segja sýna sögu: 

IMG_8676Beðið eftir vinum við Lipp.

IMG_8680Andrúmsloftið og maturinn svíkur engan.

IMG_8689Signa var grá í haustrigningunni.

IMG_8695Ferðamenn voru við Louvre.

IMG_8696Auðvitað er Parísarhjól í París.