31.8.2019 10:48

Haarder gaf tóninn – Løkke segir af sér

Gamalreyndi Venstre-maðurinn og sá sem setið hefur lengst sem ráðherra, Berter Haarder, sagði á Facebook föstudaginn 30. ágúst að skipta yrði um forystu flokksins.

Allir vita að Donald Trump Bandaríkjaforseti notar Twitter óspart til að koma mönnum á óvart innan lands og utan. Hann setti til dæmis Dani úr skorðum á dögunum með að afboða komu sína til Danmerkur vegna þess að Mette Frederiksen forsætisráðherra hefði brugðist á „viðbjóðslegan“ hátt við áhuga sínum á að kaupa Grænland.

Nú að morgni laugardags 31. ágúst hrukku Danir við á nýjan leik vegna færslu á Twitter. Lars Løkke Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra og formaður mið-hægri flokksins Venstre í 10 ár, boðaði afsögn sína sem flokksformaður á Twitter.

Á vefsíðunn altinget.dk segir að Løkke hafi tekið ákvörðun um þetta „efter et af de mest dramatiske opgør i moderne dansk politik“ – eitt eitt dramatískasta uppgjör í danskri stjórnmálasögu samtímans.

58095Bertel Haarder í danska þingsalnum, myndina tók Ólafur Steinar Gestsson fyrir Ritzau-fréttastofuna.

Í færslu sinni gaf Løkke þá skýringu að hann hefði orðið undir á fundi 24 manna framkvæmdastjórnar flokksins að kvöldi föstudags 30. ágúst. Deilt var um dagskrá næsta landsfundar flokksins. Løkke vildi að fundurinn ræddi og samþykkti stjórnmálaályktun og gengi síðan til formannskjörs en meirihluti framkvæmdastjórnarinnar vildi að aðeins yrði um kjör forystusveitar flokksins að ræða.

Að flokksformaður segi af sér vegna ágreinings um dagskrá landsfundar gefur til kynna að Løkke vilji á brott sem fyrst og láta öðrum eftir að leysa deilur innan flokksins sem magnast hafa eftir að hann varð utan ríkisstjórnar eftir þingkosningar í byrjun júní.

Eins og segir í þessari frétt á vardberg.is er ástæða afsagnarinnar djúpstæður ágreiningur milli formanns og varaformanns Venstre, Kristians Jensens.

Danskir stjórnmálaskýrendur segja augljóst að Lars Løkke Rasmussen sé reiður og honum sé misboðið, það skíni í gegnum orð hans á Twitter.

Gamalreyndi Venstre-maðurinn og sá sem setið hefur lengst sem ráðherra, Berter Haarder, sagði á Facebook föstudaginn 30. ágúst að skipta yrði um forystu flokksins til að skapa frið innan hans. Þá lagði hann til að efnt yrði til auka-landsfundar með aðeins eitt mál á dagskrá: kjör formanns og varaformanns. Haarder skýrði afstöðu sína á þann veg að sér hefði ofboðið hvernig Lars Løkke Rasmussen gekk fram á sumarfundi þingflokks Venstre þar sem ákveðið var hvernig verkum yrði skipt milli þingmanna í trúnaðarstöðum á danska þinginu sem kemur saman 1. október.

Bertel Hararder talaði fyrir munn meirihlutans og stefnt er að því að halda auka-landsfund Venstre fyrir þann tíma þannig að heitt verður í kolum danskra stjórnmála næstu vikur.