8.10.2018 10:39

Gunnar Smári boðar starfslok Kristjönu - snýr sér að öðru

Gunnar Smári taldi fréttina samsæri sjálfstæðismanna gegn sér. Hann fengi hvergi vinnu vegna ofsókna þeirra í sinn garð.

Á vefsíðu Eflingar-stéttarfélags segir að félagsmenn séu um 27.000. Við kjör til stjórnar í félaginu í mars 2018 voru þó um 10.000 færri á kjörskrá eða 16.578 en aðeins 2.618 greiddu atkvæði og hlaut listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur 2099 atkvæði. Naut hann þannig stuðnings um 8% félagsmanna. Í Morgunblaðinu laugardaginn 6. október um aðför að fjármálastjóra og bókara Eflingar voru félagsmenn sagðir 19.000.

Ný stjórn tók við í Eflingu undir lok apríl 2018 og strax eftir valdatökuna, 27. apríl, réð Sólveig Anna nýjan framkvæmdastjóra, Viðar Þorsteinsson. Morgunblaðið greindi frá því að á fimm mánuðum frá aðalfundinum hefði Alda Lóa Leifsdóttir, eiginkona Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda Sósíalistaflokks Íslands, bakhjarls Sólveigar Önnu, fengið fjórar milljónir greiddar úr sjóðum Eflingar en fjármálastjóri félagsins og bókari hefðu verið settar í veikindaleyfi eftir að fjármálastjórinn taldi sig þurfa samþykki stjórnar til að greiða milljón krónu reikning Öldu Lóu.

Fr_20180129_079142_1538995150801Vegna fréttar Morgunblaðsins sendu Sólveig Anna og Viðar frá sér yfirlýsingu og vildu gera frásögn blaðsins tortryggilega. Tilraun þeirra til þess rann út í sandinn vegna viðbragða Gunnars Smára Egilssonar áf FB-síðu hans og vefsíðu sem Sigurjón Magnús, bróðir hans, heldur úti.

Gunnar Smári taldi fréttina samsæri sjálfstæðismanna gegn sér. Hann fengi hvergi vinnu vegna ofsókna þeirra í sinn garð og nú ætti að svipta hann og fjölskyldu hans lífsbjörginni með aðför að eiginkonu hans. Síðar beindi Gunnar Smári heift sinni að Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, og vændi hana um að hafa gert greiðslur til Öldu Lóu að fréttaefni vegna deilna við yfirmenn sína á skrifstofu félagsins. Hann sakaði einnig Kristjönu um spillingu í starfi.

Kristjana mótmælir ásökunum í sinn garð í Morgunblaðinu í morgun (8. október) og segir: „Það er mjög athyglisvert að starfsmaður stéttarfélags til 36 ára, sem unnið hefur undir stjórn þeirra Guðmundar J., Halldórs Björnssonar og Sigurðar Bessasonar, þurfi að ráða sér lögmann til að verja sig þegar stéttarfélagið hefur það hlutverk samkvæmt lögum að verja launamenn.“ Hún hefur með öðrum orðum falið lögmanni að takast á við Gunnar Smára og líklega einnig stjórnendur Eflingar sem staðfesta með þögn sinni að þeir hafi knúið hana og bókarann til að fara í veikindaleyfi.

Gunnar Smári segir af þessu tilefni á FB-síðu sinni í dag (8. október):

„Æði held ég að þetta eigi eftir að verða leiðinlegt mál, að festast á milli deilu fjármálastjórans Eflingar og yfirmanna hennar. Lögfræðingur og ráðgjafar hennar telja augljóslega að hún fái betri starfslokasamning við Eflingu með því að teikna upp mynd af forystu Eflingar sem einhvers konar cult-söfnuði þar sem ég á að vera Raspútín á bak við tjöldin, en ekki upprisu grasrótarinnar gegn spilltri og aðgerðarlítilli forystu.“

Hann staðfestir ákvörðun nýrra forystumanna Eflingar um að reka Kristjönu Valgeirsdóttur eftir 36 ára starf. Hann lætur eins og hann komi þar ekkert nærri en segist ætla að snúa sér að öðru. Hann hafi fengið „heimild fyrrum stjórnar Samtaka leigjenda á Íslandi til að vinna að endurreisn þess félags og það tókst vel“. Lokaorðin eru þessi:

„Fram undan eru aðrar orrustur, sem munu byggja upp hreyfingu alþýðunnar, byggja upp fleira forystufólk og á endanum kollvarpa auðvaldinu og þeim sem ganga erinda þess.“