5.3.2019 10:13

Gunnar Bragi vegur að Sigurði Inga

Gunnar Bragi ber margfalda ábyrgð á þessum samningi þótt hann kjósi nú að vega að Sigurði Inga Jóhannssyni vegna hans til að grafa undan trausti í hans garð.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrv. utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, vegur að Sigurði Inga Jóhannssyni, núv. formanni Framsóknarflokksins, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir samning um landbúnaðarmál sem var áritaður í tíð Gunnars Braga sem utanríkisráðherra 17. september 2015. Gunnar Bragi var orðinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 24. maí 2016 þegar Lilja Alfreðsdóttir flutti sem utanríkisráðherra Framsóknarflokksins tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á samningnum við ESB.

Meginefni samningsins var að tollfrjálsir innflutningskvótar Íslands fyrir skyr og lambakjöt til ESB voru stórauknir auk þess sem Íslendingar fengu nýja kvóta fyrir aðrar kjöttegundir inn til ESB. Þess í stað jukust gildandi tollfrjálsir kvóta til handa ESB umtalsvert og opnað var fyrir kvóta fyrir alifugla hingað til lands. Varðandi unnar vörur féllu allir tollar niður nema á jógúrt, smjörva og ís.

OstarÍ Morgunblaðinu í dag (5. mars) segir Gunnar Bragi að hann hafi að morgni 19. september 2015 séð frétt þar sem formaður Bændasamtaka Íslands (BÍ) sagði samninginn við ESB gerðan án samráðs við bændur. Þetta hafi komið sér „gríðarlega á óvart enda verið fullvissaður af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra [Sigurði Inga] sem bar ábyrgð á samningunum, að um þetta hefði verið fullt samráð“.

Segist Gunnar Bragi hafa neitað að mæla fyrir samningnum á þingi sem utanríkisráðherra. Var það gert eftir að Sigmundur Davíð var hættur sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi tekinn við af honum, Lilja orðinn utanríkisráðherra og Gunnar Bragi, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tók ekki til máls í umræðum um samninginn á þingi en greiddi atkvæði með honum 13. september 2016.

Gunnar Bragi ber margfalda ábyrgð á þessum samningi þótt hann kjósi nú að vega að Sigurði Inga Jóhannssyni vegna hans til að grafa undan trausti í hans garð. Leikurinn sem Gunnar Bragi kýs að leika hér minnir á tvöfeldni hans í afstöðunni til 3ja orkupakka ESB auk þess að sýna hvernig miðflokksmenn vilja eyðileggja Framsóknarflokkinn.