28.5.2020 10:37

Guðmundur Franklín hefnir sín

Hann býður sig fram fyrir þjóðina eingöngu, hann segist ekki hafa neina þörf „fyrir bitlinga eða að hitta eitthvert frægt fólk“.

Kolbrún Bergþórsdóttir kemst að þeirri niðurstöðu í leiðara Fréttablaðsins í dag (28. maí) að Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi sé „illa haldinn af athyglissýki og ofmati á sjálfum sér“. Hún telur að hann hafi „greinilega átt hvetjandi samtal við sjálfan sig áður en hann tók ákvörðun sína“ um framboð.

Kolbrún finnur Guðmundi Franklín sérstaklega til foráttu að hann hóti fjölmiðlafólki. Honum hafi mislíkað spurningar til sín í þætti á ríkissjónvarpinu og þá sagt „á fésbókarsíðu sinni „að hann ætti „stóra vopnageymslu af upplýsingum um allt þetta fólk“ – það er að segja starfsfólk RÚV – og sagðist ekki hika við að nota þær ef þörf krefði“.

Telur Kolbrún Guðmund Franklín hafa lært þessa takta af því að horfa á „of marga blaðamannafundi með Donald Trump“. Upplýsir Kolbrún lesendur sína um að Guðmundur Franklín sé aðdáandi Trumps og beri gjarnan lof á hann á Útvarpi Sögu. Þá segir í leiðaranum:

„Trumpistar Íslands, sem eru reyndar allt of margir, hafa ástæðu til að gleðjast, þeir hafa vísast fundið sinn frambjóðanda, og munu örugglega skunda á kjörstað.“

Í gær var rætt við Guðmund Franklín í fréttum ríkissjónvarpsins og þar sagði hann helsta eiginleika sinn af fjölmörgum að „tala frá hjartanu“. Hann býður sig fram fyrir þjóðina eingöngu, hann segist ekki hafa neina þörf „fyrir bitlinga eða að hitta eitthvert frægt fólk“. Hann segir 3. orkupakkann hafa verið kveikjuna að framboði sínu og ætlun sín sé að standa gegn frekari skrefum á þeirri braut.

Fyrir réttu ári héldu miðflokksmenn alþingi í gíslingu með maraþon-málþófi gegn 3. orkupakkanum sem síðan var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á þingi 2. september 2019.

1155821Guðmundur Franklín Jónsson beitti sér í fyrra fyrir undirskriftasöfnun gegn staðfestingu laga í tengslum við 3. orkupakkann. Alls mótmæltu 7.643 á netinu og 5. september 2019 afhenti Guðmundur Franklín forseta Íslands mótmælin með ósk um að hann beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðni Th. Jóhannesson gerði það ekki og hefur það leitt til forsetakosninga í sumar. (Mynd: mbl.is/Árni Sæberg.)

Að lokakafli pólitísku furðusögunnar um 3. orkupakkann sé forsetaframboð Guðmundar Franklíns gegn Guðna Th. Jóhannessyni sýnir að ekki þarf alltaf þýðingarmikil mál á stjórnmálavettvangi til að velta þungu hlassi. Forsetakosningar eru ekkert grín.

Í grein í Morgunblaðinu í morgun segir forsetaframbjóðandinn: „Eins munum við vel eftir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði gegn orkupakkanum á Landsfundi“ og dettur beint í rangfærsluþvæluna um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa máls. Tali frambjóðandinn beint frá hjartanu er skemmtilegra fyrir hann að hafa staðreyndir á hreinu og ekki fara inn á svið þar sem heilinn hefur einnig hlutverki að gegna. Það er hættulegt fyrir þjóðina að kjósa yfir sig mann sem fimbulfambar um mál án þess að hafa vitneskju um hvernig þau eru vaxin.

Í fréttum ríkissjónvarpsins kl. 19.00 var tilkynnt að nú yrði haldið til útlanda að loknum nokkrum innlendum fréttum. Inn í útlenda kafla fréttanna var sagt frá kosningafundum Guðmundar Franklíns í Reykjanesbæ (þar var fámennis og tveggja-metra-reglunnar gætt). Strax að fréttinni lokinni birtist frekar afskræmd mynd af Donald Trump og frásögn af því að hann ætlaði að setja reglur um samfélagsmiðla eftir að stjórnendur Twitter fundu að málflutningi hans. Var þetta tilviljun eða svar fréttamanna við hótun Guðmundar Franklíns í þeirra garð?

Ef til vill er þetta allt gert til að létta okkur lund í kófinu? Samanber viðtalið við Kára Stefánsson í deCode í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hann minnti á hve erfitt er fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að sjá einkarekin heilbrigðisfyrirtæki í réttu ljósi.