Grisjun í kapphlaupi
Nú er Dóra Björt Guðjónsdóttir í forystu um samstarf fimm flokka í borgarstjórn. Vonandi verða nógu mörg tré felld til að opna Reykjavíkurflugvöll áður en flokkarnir semja um að stjórn borgarinnar verði í þeirra höndum.
Vandræðagangur Reykjavíkurborgar vegna grisjunar trjáa í Öskjuhlíðinni til að tryggja öryggi á Reykjavíkurflugvelli er samfelld, dapurleg hrakfallasaga. Stjórnkerfi borgarinnar þolir ekki daglegt eftirlit fjölmiðla og almennings.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Einar Birgi Kristjánsson, framkvæmdastjóra Tandrabergs, sem sérhæfir sig í skógarhöggi. Hann segir myndir af mönnum með keðjusög við trjáboli sýna að unnið sé eins og við trjáfellingar í görðum.
Það sé bæði dýrt og hættulegt. Fram kemur að borgin undirbúi útboð vegna verksins en tímasetningar séu enn óljósar.
Trjáfelling með keðjusögum er sögð erfið vinna og hættuleg. Hún eigi við í húsagörðum en ekki í Öskjuhlíðinni þar sem myndin er tekin (mynd: mbl.is/Karítas).
Allt sem varðar þessa grisjun skógarins sýnir ömurlega stjórnsýsluhætti, einkum hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar undir forystu Pírata.
ISAVIA sendi Reykjavíkurborg minnisblað 6. júlí 2023 þar sem segir í upphafi:
„Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13 [innsk. austur/vestur braut Reykjavíkurflugvallar]. Vindafar ræður notkun flugbrauta og flugbraut verður að vera aðgengileg og örugg til þess að tefla ekki rekstraröryggi flugvallarins í tvísýnu.“
Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, sendi erindið inn í óreiðuna hjá umhverfis- og skipulagsráði. Ekkert gerðist.
Samgöngustofa sendi Reykjavíkurborg bréf, dags. 27. maí 2024, um skyldu borgaryfirvalda til að fjarlægja trjágróður í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis. Sagði í bréfinu að hefði borgin ekki samvinnu við ISAVIA fyrir 2. september 2024 um að tryggja flugöryggi um Reykjavíkurflugvöll myndi samgöngustofa beita lögbundnum valdheimildum og „fara í nauðsynlegar aðgerðir til þess að fjarlægja þær hindranir sem eru í Öskjuhlíð, á kostnað Reykjavíkurborgar“.
Lagst var á bréfið í ráðhúsinu. Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði að því hefði ekki verið dreift innan borgarstjórnar þar sem bréfið hefði verið stílað á Reykjavíkurborg en hvorki á umhverfis- og skipulagsráð né borgarráð. Hún kynnti reglu um að bréf stíluð Reykjavíkurborg ætti ekki að sýna þeim sem skipa borgarstjórn!
Miðvikudaginn 5. febrúar 2025 beindi Samgöngustofa þeim fyrirmælum til ISAVIA að nota ekki austur/vestur flugbrautina þar sem tré hindra. Þá segir að bannið nái einnig til sjúkraflugs. Það taki gildi kl. 00:00 8. febrúar 2025 og gildi til 5. maí 2025. Því megi aflétta séu gerðar ráðstafanir til að fjarlægja hindranirnar sem ógni flugörygginu.
Þegar rætt var um þessi mál í borgarstjórn þriðjudaginn 4. febrúar studdu ramsóknarmenn tillögu sjálfstæðismanna um að festa flugvöllinn í aðalskipulagi til 2040 í stað 2032. Framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson borgarstjóri var tekinn á beinið af meirihlutafólki í fundarhléi 4. febrúar. Að kvöldi föstudagsins 7. febrúar ákvað Einar að segja skilið við meirihlutann.
Nú er Dóra Björt Guðjónsdóttir í forystu um samstarf fimm flokka í borgarstjórn. Vonandi verða nógu mörg tré felld til að opna Reykjavíkurflugvöll áður en flokkarnir semja um að stjórn borgarinnar verði í þeirra höndum.