26.2.2021 10:22

Grímuregla gegn trausti

Gildi grímunotkunar er umdeilt en gríman hefur fengið að njóta vafans. Að lokum fjarar einfaldlega undan reglum sem settar eru án meðalhófs.

Að fara á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í gærkvöldi minnti mig á að nú 5. mars 2021 verður eitt ár frá því ég síðast hlustaði á tónlist flutta í Eldborg þar til nú.

Sóttvarnayfirvöld hér  tóku nýja stefnu varðandi grímur í lok júlí 2020. Í al­mennings­sam­göngum og á fleiri stöðum þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metra á milli ein­stak­linga átti fólk að vera með grímur. Skyldan var síðan hert. Það var skylt að sitja með grímu í Eldborgarsalnum í gærkvöldi þótt fjöldi áheyrenda væri takmarkaður og fjarlægð milli þeirra eftir reglum sóttvarnafræðanna.

Ég hef vakið máls á því við sundfélaga mína í Laugardalslauginni að ekki sé skylt að vera með grímu utan dyra á meðan þess er beðið að laugin sé opnuð. Á blaði við innganginn stendur auk þess að „æskilegt“ sé að laugargestir séu með grímu í anddyri laugarinnar. Er óhætt að koma grímulaus á sundstaði? Hver hefur svar við því?

54807B4A1C81DCCF8C41220C2D9242C6DD0842674C65C6D830E468DB8AF0D4D4_713x0Þegar tilkynnt var 30. júlí 2020 að nota ætti grímur í strætó og annars staðar seldi eitt fyrirtæki meira en 30.000 grímur á tveimur tímum.

Kolbrún Bergþórsdóttir sagði í leiðara Fréttablaðsins fimmtudaginn 25. febrúar:

„Sóttvarnalæknir, sem er í eðli sínu sanngjarn og varfærinn maður, sagði á dögunum að hann sæi ekki annað en fólk væri almennt ánægt með að ganga með grímur. Þessi fullyrðing kom vitanlega f latt upp á þá fjölmörgu sem sjá samhengi milli grímunotkunar og frelsissviptingar. Þó er það svo að það sem sumir sjá sem böl líta aðrir á sem blessun. Sjá má fólk, sem er eitt á göngu, fjarri öðrum, arka áfram með grímuna fasta á andlitinu. Bíleigendur, einir í bíl sínum, aka út um allar koppagrundir með grímu. Þessir einstaklingar virðast hafa fengið ofurást á grímunum sínum. Við skulum ekki taka þær frá þeim. Leyfum þeim að njóta þeirra meðan þeir vilja. Það er hins vegar óþarfi á nánast smitlausum tímum að klína þeim upp á fólk sem kærir sig alls ekki um þær og notar þær yfirleitt kolvitlaust.

Á tímabili voru stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld nokkuð dugleg við að segja að takmarkanir mættu ekki vera umfram það sem ástæða væri til. Þau lögðu áherslu á að þau fögnuðu umræðum, spurningum og gagnrýni um aðgerðir. Svo var eins og þessi sömu yfirvöld fylltust þreytu þegar krefjandi og gagnrýnna spurninga var beint til þeirra. Þau virtust jafnvel óska þess helst að fólk hlýddi án þess að spyrja.“

Þetta eru orð í tíma töluð. Mikilvægt er að sóttvarnayfirvöld njóti áfram trausts og tiltrúar almennings. Þau hafa unnið afrek á undanförnum mánuðum og þjóðin hefur farið að tilmælum þeirra með augljósum og góðum árangri.

Gildi grímunotkunar er umdeilt en gríman hefur fengið að njóta vafans.

Að lokum fjarar einfaldlega undan reglum sem settar eru án meðalhófs. Þannig er til dæmis komið fyrir reglunni sem skyldar okkur til að sitja með grímu á tónleikum í Eldborg. Ekki ber að amast við þeim sem er ljúft að bera grímu en ekki heldur hinum sem kjósa að láta grímuna falla. Við viljum hins vegar fá að taka niður grímuna án þess að vera litin hornauga sem tilræðismenn við heilbrigði þjóðarinnar þess vegna verður sóttvarnalæknir að hanna nýja grímureglu.