3.8.2020 10:47

Grænlendingur ekki Eskimói

Hættulegasta afleiðingin er að staðið sé í vegi fyrir rökræðum og upplýstum umræðum um framvindu þjóðfélagsmála.

Margir Íslendingar hafa vafalaust orðið fyrir þeirri reynslu í útlöndum að þeir sem lítið vita um land og þjóða spyrja hvort margir Eskimóar búi hér á landi. Almennt á að líta á spurninguna um eðlilega forvitni hjá þeim sem fávísir eru. Ef til vill kunna einhverjir fordómar að búa að baki hjá einhverjum en hvað sem því líður er orðið „Eskimói“ ekki lengur talið sæma um Grænlendinga eða Inuita.

Nú hefur Københavns Universitets Institut for Eskimologi breytt um nafn og heitir Grønlandske og arktiske studier og danska Þjóðminjasafnið hefur ákveðið að afmá orðið „eskimói“ í sýningunni Eskimoer og Grønland sem hefur verið nær óslitið í safninu frá 1992.

Rökin fyrir þessu eru þau að orðið Eskimói sem samheiti yfir frumbyggja á Grænlandi, í Kanada og Rússlandi, er talið niðurlægjandi. Það lýsi gagnkvæmri virðingu að annarra þjóða menn tali um Grænlendinga en ekki Eskimóa. Fyrir okkur Íslendinga ætti þetta ekki að skapa neinn vanda því að almennt notum við orðið Grænlendingur um næstu nágranna okkar í vestri og orðið Inutiti hefur einnig fest hér rætur.

_113460282_mediaitem113460280Spellvirki var unnið á Nuuk-styttunni af Hans Egede.

Nú á tímum setja sumir breytingar af þessu tagi í það ljós að með þeim sé gefið eftir gagnvart einhverjum duldum öflum og það verður sjálfstætt baráttumál að setja breytingarnar í þjóðernislegt samhengi. Það sé frelsisskerðing að ákveða að nota orðið Grænlendingur en ekki Eskimói. Vegna þessa verða hatrammar deilur og málið jafnvel sett í samhengi við hrun vestrænnar menningar.

Þegar grannt er skoðað sjá menn að öfgafullar ályktanir í þá veru standast ekki. Þær eru hins vegar til þess fallnar að hindra almennar rökræður um þróunina sem leiðir til þess að orðnotkunin breytist. Margir óttast að taka til máls vegna þess að þeir vilja ekki láta draga sig inn í orrahríð sem einkennist af stóryrðum og skítkasti.

Pólitískur rétttrúnaður og barátta í þágu hans tekur á sig margar myndir. Hættulegasta afleiðingin er að staðið sé í vegi fyrir rökræðum og upplýstum umræðum um framvindu þjóðfélagsmála.

Í Nuuk, höfuðborg Grænlands, kom fram krafa um að fella styttuna af Hans Egede, norska trúboðans, sem hélt til Grænlands 1721 og ætlaði að hitta þar fyrir norræna menn og snúa þeim frá katólsku en greip í tómt. Hann boðaði hins vegar trú meðal grænlenskra Inuíta og settist 1728 að þar sem nú er Nuuk. Íbúar bæjarins reistu styttu af Egede árið 1922. Nú í júlí 2020 voru greidd atkvæði um það í Nuuk hvort fella ætti styttuna af því að hún væri tákn danska nýlendutímans. Alls greiddi 1,521 atkvæði og vildu 60% að styttan stæði áfram en bæjarstjórn Nuuk tekur lokaákvörðun í málinu 2. september 2020.

Allt sýnir þetta að gerjunin sem setur sterkan svip á stjórnmál og þjóðlíf víða um lönd um þessar mundir nær einnig til okkar sem búum á norðurslóðum. Við eins og aðrir þurfum að líta í eigin barm og meta stöðu okkar í mörgu tilliti á líðandi stundu án þess að binda enda á almennar rökræður með öfgasjónarmiðum.