17.1.2025 9:48

Grænland fyrir Grænlendinga

Grænlendingar eru ekki eina Norður-Atlantshafsþjóðin sem hallar sér frekar í vestur en að ESB. Norðmenn hafa tvisvar sinnum hafnað ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bretar sögðu sig úr ESB eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að morgni fimmtusdagsins 16. janúar kallaði Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana forystumenn í dönsku atvinnulífi og forstjóra stærstu fyrirtækja landsins á sinn fund til að ræða við þá símtalið sem hún átti í 45 mínútur við Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta daginn áður. Ráðherrann átti einnig fund með utanríkismálanefnd þingsins og eigin þingflokki og voru þingmenn jafnaðarmanna beðnir um að geyma farsímana utan dyra svo að ekki væri unnt að hlera það sem á fundinum gerðist.

Ekkert hefur lekið út um efni fundanna en að þeir séu haldnir og svona mikil áhersla lögð á að trúnaðar sé gætt staðfestir hve mikil spenna er milli dönsku ríkisstjórnarinnar og Trumps vegna afstöðu hans til Grænlands og hótana um beitingu her- eða viðskiptavalds til að tryggja Bandaríkjamönnum þá aðstöðu á Grænlandi sem fellur að þjóðaröryggishagsmunum þeirra.

24871887-mute-b-egede-var-gst-hos-bret-baier-p-fox-newsBret Baier og Múte B. Egede ræða  saman að kvöldi 16. janúar 2025.

Í gær auglýsti bandaríska sjónvarpsstöðin Fox News rækilega að þá um kvöldið myndi einn öflugasti fréttaþáttarstjórnandi stöðvarinnar, Bret Baier, ræða við Múte B. Egede formann grænlensku landstjórnarinnar. Talið er víst að Donald Trump hafi verið meðal þeirra sem horfðu á samtalið en þar sagði Egede:

„Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn. Við viljum ekki einu sinni vera Danir. Við viljum öflugt samstarf milli landa okkar.

Við viljum tala skýrt: Við viljum ekki vera Bandaríkjamenn . Við viljum ekki vera hluti af Bandaríkjunum.“

Mette Frederiksen sagði við Trump í símtalinu að ákvörðun um stöðu Grænlands væri í höndum Grænlendinga. Leggi Trump saman tvo og tvo fær hann útkomu sem fellur ekki að þeirri skoðun hans að Bandaríkjamenn verði að hafa stjórn Grænlands í hendi sér. Eða hvað?

Af dönskum fjölmiðlum má ráða að nú bíði danskir ráðamenn með öndina í hálsinum eftir því hvort Trump minnist á Grænland í stefnuræðunni sem hann flytur þegar hann verður settur í embætti mánudaginn 20. janúar.

Danskir fréttaskýrendur telja víst að aðild Dana að ESB komi í veg fyrir að Trump geti einangrað Danmörku í tollastríði, hann verði að hækka tolla á allar útflutningsvörur ESB. Má skilja það svo að innan ESB njóti Danir stuðnings í hugsanlegu viðskiptastríði vegna Grænlands. Þar er þó ekkert fast í hendi.

Grænlendingar ákvaðu árið 1985 í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við ESB og þar heyrist engin rödd núna um að nánari tengsli við ESB séu æskilegri en að halla sér að Bandaríkjunum án þess þó að verða 51. ríki þeirra.

Grænlendingar eru ekki eina Norður-Atlantshafsþjóðin sem hallar sér frekar í vestur en að ESB. Norðmenn hafa tvisvar sinnum hafnað ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bretar sögðu sig úr ESB eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í því felst rangt mat á geópólitískri stöðu og skilningsleysi á afstöðu ESB til öryggismála á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi að setja nú á dagskrá hér spurninguna um að aðild Íslands að ESB. Nærtækara er að fylgjast náið með framvindu Grænlandsmálsins og leggja þeim lið með samvinnu og aðstöðu hér á landi sem í raun vilja tryggja öryggisgæslu í okkar heimshluta. Þar er Evrópusambandið í aukahlutverki, meira að segja Danir átta sig á því.