21.10.2018 10:52

Græningjar sækja fram í Þýskalandi

Nú sýnir ný könnun á vegum Infratest fyrir vikuritið Der Spiegel að 47% Þjóðverja segjast geta hugsað sér að kjósa Græningja.

Þegar kosið var til landsþingsins í Bæjaralandi á dögunum fengu Græningjar 17,5% atkvæða. Þótti það mikið fylgi í þessum íhaldssamasta hluta Þýskalands. Nú sýnir ný könnun á vegum Infratest fyrir vikuritið Der Spiegel að 47% Þjóðverja segjast geta hugsað sér að kjósa Græningja.

Germany-bavaria-state-electionsÞýskir Græningjar eru kampakátir.

Þá segja 22% að þeir geti sætt sig við kanslara úr röðum Græningja eftir næstu kosningar til sambandsþingsins í Berlín. Allar kannanir í Þýskalandi undandarið sýna Græningja auka fylgi sitt.

Þegar spurt er um hvernig fólk skilgreini Græningja í flokkamynstrinu telur meiri en helmingur þá vera miðjuflokk. Þannig skilgreinir flokkurinn sig sjálfur núna þótt hann hafi árum saman skipað sér vinstra megin við miðju.

„Við erum flokkur náttúruverndar, umhverfis og sjálfbærni. Er það vinstristefna? Er það hægristefna? Þetta er ekkert annað en pólitísk landafræði. Við berjumst án allra fyrirvara fyrir frjálslyndu lýðræði,“ segir Cem Özdemir, fyrrverandi varaformaður flokksins og nú þingmaður á sambandsþinginu, við blaðið Welt am Sonntag.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten er minnt á að nú séu Græningjar minnsti flokkurinn í Bundestag, neðri deild þýska þingsins í Berlín, með 67 þingmenn og þeir hafi fengið tæp 9% atkvæða í sambandsþingskosningunum árið 2017. Síðan hefur orðið gjörbreyting á afstöðu kjósenda og yrði kosið nú er þeim spáð 19 til 21%.

Í Der Spiegel segir að athuganir innan raða Græningja sýni að þeir fái nú mest fylgi frá óánægðum kjósendum Jafnaðarmannaflokksins (SPD). Það ætli flokksforystan að færa sér í nyt og höggva enn frekar inn í þær raðir.

Cem Özdemir segir gömlu þýsku flokkana á tímamótum það hrikti nú í stoðum hefðbundna flokkakerfisins.

Á sínum tíma ákvað Angela Merkel kanslari í skyndi að horfið yrði frá kjarnorkuverum til raforkuframleiðslu í Þýskalandi. Ávann hún sér þá hylli græningja og margra annarra. Í dag, 21. október, eru hins vegar nokkur þáttaskil í þessu máli í Þýskalandi því að nú kveðja sér hljóðs á útifundi í München talsmenn kjarnorkuvera. Hátíð sína halda þeir undir heitinu Nuclear Pride Fest í því felst bein vísun til Gay Pride. Markmiðið er að endurvirkja kjarnorkuverin, þau framleiði hreinustu orkuna, séu best til að tryggja hreint loft og draga úr hlýnun jarðar.