Gorgeir Pútins er takmarkalaus
Fjöldamorð, stríðsglæpir og grunsemdir um þjóðarmorð er það sem einkennir orðspor rússneska hersins eftir 50 daga stríð í Úkraínu.
Hafi Úkraínumenn sökkt rússneska stýriflauga beitiskipinu Moskvu, flaggskipi Rússa á Svartahafi, 14. apríl 2022 á þann hátt sem þeir fullyrða verður þeirra jafnan minnst þegar getið er um stórsigur í sjóorrustu. Þó er vert að hafa í huga að Úkraínumenn ráða ekki yfir flota sem er einhvers megnugur. Þeir segjast hafa sprengt gat á Moskvu með tveimur Neptune-skotflaugum, endurbættri útgáfu þeirra á flaugum sem upphaflega voru smíðaðar fyrir sovéska herinn.
Rússar viðurkenna ekki að flaugar Úkraínumanna hafi grandað Moskvu, eldur hafi kviknað um borð fyrir slysni. Er einkennileg tilviljun að eftir að eldurinn kviknaði hafi öðrum rússneskum herskipum verið skipað að sigla fjær strönd Úkraínu til að forðast skotflaugar heimamanna.
Hvort se árás Úkraínumanna eða slys um borð grandaði Moskvu er skipskaðinn gífurlegt hernaðarlegt áfall fyrir Rússa svo að ekki sé minnst á sjálfsvirðingu þeirra eða styrkleika í augum annarra.
Beitiskipið Moskva var flaggskip Svartahafsflota Rússlands, Það liggur nú á hafsbotni Pútin til háðungar þrátt fyrir gorgeir hans.
Moskva var eitt af þremur rússneskum beitiskipum af Slava-gerð. Hin eru Marshall Ustinov flaggskip Norðurflotans og Varjag, flaggskip Kyrrahafsflotans. Vegna stríðsátakanna hafa bæði þessi skip verið send til Miðjarðarhafsins.
Í Úkraínu er háður landhernaður en rússneski flotinn hefur einnig látið að sér kveða. Um 30 rússnesk herskip eru á Svartahafi og frá átta þeirra er unnt að skjóta Kalibr-flaugum á skotmörk á landi. Um 20 rússnesk herskip eru á Miðjarðarhafi, þar á meðal hin tvö beitiskipin af Slava-gerð. Fimm skipanna á Miðjarðarhafi eru með Kalibr-flaugar. Hlutverk Miðjarðarhafsskipanna er að tryggja öryggi rússneskra skipa á siglingaleiðum þar með eftirliti. Bandaríkjamenn halda úti flugmóðurskipinu Harry S. Truman og flotadeild þess á Miðjarðarhafi. Franska flugmóðurskipið Charles de Gaulle var þar til skamms tíma.
Herir NATO-ríkjanna taka ekki þátt í hernaði í Úkraínu. Sjóorrustur lúta öðrum lögmálum og er lögð gífurleg áhersla á að gæta fyllsta öryggis í samskiptum herflotanna. Komi til átaka á milli þeirra fer allt í bál og brand.
Volodymyr Zelenskíj Úkraníuforseti bar mikið lof á baráttuþrek þjóðar sinnar að kvöldi 14. apríl þegar 50 dagar voru liðnir frá því að innrásin í Úkraínu hófst. Í upphafi hefði verið spáð að Úkraínumenn gætu í mesta lagi haldið út í fimm daga, nú væru þeir orðnir 50. Þakkaði hann þjóðinni fyrir að hafa tekið mikilvægustu ákvörðun í lífi hvers einstaks Úkraínumanns, að berjast fyrir föðurlandið.
Forsetinn minntist þeirra sérstaklega sem hefðu sýnt að rússnesk herskip neyddust til að sigla á brott „jafnvel á hafsbotni“. Hæðast Úkraínumennn mjög af örlögum Moskvu. Með sprengjuárásum á Kyív hafa Rússar hefnt skipsins sem er einkennileg ráðstöfun hafi kviknað í því fyrir slysni.
Fjöldamorð, stríðsglæpir og grunsemdir um þjóðarmorð er það sem einkennir orðspor rússneska hersins eftir 50 daga stríð í Úkraínu. Tugir þúsunda rússneskra hermanna hafa fallið og efnahagur Rússlands er rjúkandi rúst. Gorgeirinn í Pútin eykst hins vegar eftir því sem niðurlæging hans verður meiri.