2.11.2022 9:29

Glórulaus rekstur og skattheimta

Sársaukalaus niðurskurður og hækkun skatta án þyngri greiðslubyrði er það sem meirihluti borgarstjórnar boðar þegar hann horfist í glórulausan rekstur sinn.

Haft var eftir framsóknarmanninum Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs, í fréttum ríkisútvarpsins í gær að íbúar Reykjavíkur myndu ekki finna fyrir niðurskurðaraðgerðum sem ráðist yrði á næsta ári í til þess að takast á við fimmtán milljarða króna hallarekstur borgarinnar.

Í fréttinni var engin skýring á því hvernig staðið yrði að því að ná þessum árangri. Helst mátti ætla að innan borgarkerfisins væru einhverjar fyrningar sem nú mætti nota, allt væri hey í harðindum.

Annaðhvort hefur Einar Þorsteinsson gengið beint inn í blekkingarheim borgarstjórans eða hann veit einfaldlega ekki betur. Gerir sér enga grein fyrir þeim vanda sem við blasir.

1344625Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri (mynd:mbl.is),

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, viðurkenndi 1. nóvember í grein á visir.is að allt hefði farið úr böndum í fjármálum Reykjavíkurborgar og boðaði umbætur með þessum orðum:

„Við leggjum áherslu á verkefnamiðaða hagræðingu, það þýðir að við skoðum hvað við getum hætt að gera, hvað viljum við leggja niður, sameina eða endurskipuleggja. Við ætlum að leita hagkvæmustu leiða til útfærslu á þjónustu og rekstri. Það á jafnt við um lögbundna og lögheimila þjónustu.“

Miðað við orð formanns borgarráðs á ekkert af því sem þarna er lýst að vera þess eðlis að borgarbúar finni fyrir því. Býr Dagur B. Eggertsson borgarstjóri yfir einhverri töfralausn sem útilokar að aðrir finni fyrir fjárhagsvanda borgarinnar en kjörnir fulltrúar og borgarstarfsmenn?

Í Morgunblaðinu í dag (2. nóv.) er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, í tilefni af boðuðum áformum meirihluta borgarstjórnar um að halda óbreyttu álagningarhlutfalli á fasteignagjöldum árið 2023. Hann sagði:

„Það er glórulaus hækkun á þessum fasteignasköttum. Þetta er mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki í Reykjavík, alveg klárlega.“

Miðað við áætlun borgarinnar fyrir næsta ár ættu fasteignaskatttekjurnar að vera 16,9 milljarðar króna. Það væri fimm milljörðum hærri fjárhæð en fyrir fimm árum. Þá væri gert ráð fyrir sömu hækkun árlega til ársins 2027. Skatttekjur borgarsjóðs yrðu því komnar í tæplega 21 milljarð undir lok fimm ára áætlunarinnar og yfir 20 milljarða í lok kjörtímabils núverandi meirihluta í borginni.

Álagningarprósenta borgarinnar er sú hæsta meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Hún er í lögbundnu hámarki, 1,65%. Frá 2017 hefur Hafnarfjarðarbær lækkað prósentuna úr 1,65% niður í 1,4% eða um 0,25 prósentustig og Kópavogsbær úr 1,62% niður í 1,47% eða um 0,15 prósentustig.

Ingólfur Bender telur fasteignskattastefnu borgarinnar leiða til þess að fyrirtæki flytji úr borginni og hætta sé á stöðnun í rekstri þeirra sem verði þar áfram. Fyrir utan að velja sér önnur sveitarfélög hér hugi fyrirtæki einnig að flutningi til annarra landa þar sem eins háir fasteignaskattar og hér finnast ekki.

Sársaukalaus niðurskurður og hækkun skatta án þyngri greiðslubyrði er það sem meirihluti borgarstjórnar boðar þegar hann horfist í glórulausan rekstur sinn.