12.6.2022 11:34

Gleðilegan sjómannadag!

Á tímum þegar fæðuöryggi og aðfangakeðjur ber hátt er mikilvægt að tryggja að skráning kaupskipa „í þjónustu við Ísland“ sé þannig að ekki verði rof á þjónustunni vegna þess hvar skipin eru skráð. Íslenskir sjómenn mynda lífæðina í afkomu og lífi þjóðarinnar nú sem fyrr.

Loksins er að nýju unnt að halda sjómannadaginn hátíðlegan með veglegu og hefðbundnu sniði eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldursins. Sjávarútvegur hefur dafnað þrátt fyrir faraldurinn en í kjölfar hans og vegna innrásar Rússa í Úkraínu hækkar matvælaverð jafnt og þétt.

Í sérstöku sjómannadagsblaði Morgunblaðsins er frétt um að viðmiðunarverð á fimm kílóa slægðum þorski sé í júní 380,47 krónur á kíló, 108,52 krónum meira en í sama mánuði í fyrra. Hefur því viðmiðunarverð hækkað um tæp 40% á síðustu 12 mánuðum. Í fréttinni segir að hæsta verð undanfarið hafi þó verið yfir vetrartímann, nam það 383,13 kr. í desember og janúar.

Á árum áður hefði þetta þótt stórfrétt en ratar nú helst í sérblöð eða í fréttabréf Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þar sagði meðal annars 8. júní sl.:

„Á fyrstu 5 mánuðum ársins [2022] eru útflutningsverðmæti sjávarafurða ... komin í 141 milljarð króna. Það er 19% aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Hafa útflutningsverðmæti á fyrstu 5 mánuðum ársins aldrei verið meiri eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná, sem er frá árinu 2002. Á það bæði við um í krónum talið og í erlendri mynt og jafnframt þegar tölurnar hafa verið leiðréttar fyrir verðbólgu erlendis.“

Alls eru 98% af íslensku sjávarfangi flutt út og seld á erlendum mörkuðum. Í því efni skipta reglulegar skipaferðir til helstu markaðssvæða sköpum til að halda þar þeirri sterku stöðu sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa aflað sér austan hafs og vestan.

888109Frá sjómannadegi, mynd mb.ls.

Á árinu 2020 fékk Eimskip tvö „stærstu og umhverfisvænustu kaupskip í þjónustu við Ísland“ í þjónustu sína, Dettifoss og Brúarfoss, eins og segir í tilkynningu félagsins frá 9. júní 2022 þegar Dettifoss hlaut „formlega nafn við hátíðlega athöfn á Skarfabakka í Reykjavík“.

Árið 2020 voru skipin kynnt til sögunnar sem „mikilvægt skref í því að geta hafið fyrirhugað samstarf með grænlenska skipafélaginu Royal Arctic Line“. Með samstarfinu tengdist Grænland alþjóðlegu siglingakerfi Eimskips.

Þessi tvö glæsilegu skip eru ekki frekar en önnur íslensk kaupskip skráð á alþjóðlega íslenska skipaskrá þar sem allar tilraunir til að stofna til hennar hafa mistekist til þessa meðal annars vegna andstöðu verkalýðshreyfingarinnar.

Á tímum þegar fæðuöryggi og aðfangakeðjur ber hátt er mikilvægt að tryggja að skráning kaupskipa „í þjónustu við Ísland“ sé þannig að ekki verði rof á þjónustunni vegna þess hvar skipin eru skráð. Íslenskir sjómenn mynda lífæðina í afkomu og lífi þjóðarinnar nú sem fyrr.