1.4.2018 10:40

Gleðilega páska!

Kveikjan að þessum skrifum er þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur í morgun, páskadag, um sálma tengda deginum í sálmabókinni

Una Margrét Jónsdóttir hefur lagt mikið af mörkum til dagskrár ríkisútvarpsins og nú í vetur til dæmis kynnt hlustendum sálmatónlist í einstaklega fróðlegum þáttum á sunnudagsmorgnum.


Einkenni þátta Unu er hve mikla vinnu hún leggur að baki áður en hún flytur hlustendum efnið sem hún kynnir hverju sinni. Þessi alúð við dagskrárgerð í hljóðvarpi verður því miður sífellt sjaldgæfari og leiðir meðal annars til þess að munurinn á hljóðvarpi ríkisins og öðrum hljóðvarpsstöðvum minnkar.

Það eru ekki sannfæarandi rök að skortur á fjármunum valdi því hjá ríkisútvarpinu að ekki sé unnt að gera meiri kröfur til dagskrárgerðar en raunin er.

Oft er efni aðeins flutt til að fylla upp í þann tíma sem þáttarstjórnendum er ætlaður hverju sinni. Er það gert með því að fara yfir kynningar á því sem í boði verður annars staðar og stofnað til samtals við þá sem að viðburðinum standa. Auglýsingablærinn er svo yfirþyrmandi að stundum mætti ætla að efnið sé kostað af þeim sem kallaður er á vettvang.

Það er aðeins stigsmunur á slíkum þáttum og símaþáttunum sem fluttir eru á Útvarpi Sögu og eru einskonar öryggisventill fyrir ergelsi þeirra sem hneykslast eða hella úr skálum reiði sinnar í símtali við Pétur Gunnlaugsson eða Arnþrúði Karlsdóttur. Ber ekki að gera lítið úr gildi þess ventils fyrir jafnvægi í samfélaginu um leið og fagnað er að eins auðvelt er að slökkva á honum og kveikja.

Kveikjan að þessum skrifum er þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur í morgun, páskadag, um sálma tengda deginum í sálmabókinni. Efnistök Unu Margrétar eru vel til þess fallin að minna á helgi dagsins og gleðina sem tengist honum.

Gleðilega páska!