24.12.2017 10:04

Gleðileg jól!

Að hafna því að þeir atburðir hafi gerst sem eru tilefni fagnaðarhátíðarinnar er ekki annað en tilraun til að neita einhverju sem er hafið yfir allan skynsamlegan vafa.

Fréttir af fljúgandi furðuhlutum berast alltaf öðru hverju. Nýlega var skýrt frá því að innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins á fimmtu hæð í risabyggingu þess, Pentagon, í Washington hefði Luis Elizondo frá árinu 2007 stjórnað fámennri deild undir ógagnsæju heiti Advanced Aviation Threat Identification Program (AATIP) og hefði hún fengið 22 milljónir dollara úr „svörtum aðgerðasjóði“ Bandaríkjaþings.

Blaðamaður The Telegraph í London ræddi við Elizondo sem sagðist lítið mega segja opinberlega vegna þagnarskyldu sinnar. Hann sagði þó að öllum steinum hefði verið velt, engu tilviki hefði verið hafnað sem of smávægilegu. Hann sagði einnig að væri litið á rannsóknirnar sem réttarrannsókn mætti fullyrða að sannanirnar væru „hafnar yfir skynsamlegan vafa“. Það væri með öðrum orðum eitthvað fljúgandi á ferðinni sem ekki hefði enn verið skýrt til fulls.

Myndin er af gömlum bæjardyrum að Kvoslæk í Fljótshlíð - Þríhyrningur í baksýn.

Þessi frásögn úr samtímanum af því að þrátt fyrir alla tækni og háþróaðan eftirlitsbúnað sé ekki unnt að skýra allt sem gerist á vel við þegar fagnað er fæðingu frelsarans. Að hafna því að þeir atburðir hafi gerst sem eru tilefni fagnaðarhátíðarinnar er ekki annað en tilraun til að neita einhverju sem er hafið yfir allan skynsamlegan vafa.

Ég flyt lesendum mínum bestu óskir um gleðileg jól!