5.6.2022 10:26

Gildi heilags anda

Boðskapur kirkjunnar er ekki lengur miðlægur í íslensku samfélagi en að hann skuli vera orðinn jafnfjarlægur og þessi svör gefa til kynna vekur undrun og jafnframt áhyggjur.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins var fólk á förnum vegi spurt:

Hvað gerðist á hvítasunnudag?

Svörin voru:

Páll postuli gerði eitthvað.

Það er upprisan. Kristur birtist söfnuði sínum.

Jesús skírði einhvern mann. Held ég.

Voru þeir ekki með matinn?

Blaðið gaf þetta svar:

Heilagur andi kom yfir lærisveina Krists, sem þá var aftur stiginn upp til himna, og kristin kirkja var stofnuð.

Boðskapur kirkjunnar er ekki lengur miðlægur í íslensku samfélagi en að hann skuli vera orðinn jafnfjarlægur og þessi svör gefa til kynna vekur undrun og jafnframt áhyggjur, ekki aðeins vegna vanþekkingar á grunnþætti kristinnar trúar og kirkjusögunnar heldur einnig vegna þess að um rætur nútíma samfélags á Íslandi er að ræða. Það er reist á kristnum gildum þar sem heilagur andi er meðal þriggja meginstoða. Í postullegu trúarjátningunni segir:

„Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapar himins og jarðar.

Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda...

Ég trú á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra,

fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.“

Holy-spirit-dove_SITengsl Guðs föður og sonarins urðu og ljós við skírn Jesú, þegar “heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa”. Án vitneskju um þetta er mörgum líklega óskiljanlegt hvaða hlutverki dúfan gegnir í mörgum gömlum og nýjum trúarlegum listaverkum.

Í orðtakasafni á fræðsluvef Hins íslenska biblíufélags segir meðal annars:

„Páll postuli kennir, að það sé heilagur andi sem gefur frelsi hinum nýja lýð Guðs og breytir lífi hans svo að hann öðlast frið og verður Guði hlýðinn. Andinn veitir skilning á vilja Guðs, kennir mönnum að lifa saman í kærleika, eflir með þeim hugboð um það sem framtíðin ber í skauti sér og hjálpar þeim til þess að inna af hendi störfin mörgu í söfnuðunum. Andinn glæðir kærleikann og kemur til leiðar því líferni sem Guð væntir af börnum sínum.“

Þeir sem viðurkenna ekki tilvist heilags anda eða vita alls ekkert um hann eiga erfitt með að skilja margt sem sagan geymir og varla verður skýrt á annan veg en þann að slíkur andi hafi vakið með mönnum hugmyndir eða veitt þeim nauðsynlegan styrk til að takast á við það sem á vegi þeirra verður og ekki verður sigrað án yfirnáttúrulegs krafts.

Megi heilagur andi setja svip á íslenskt samfélag!