18.3.2024 10:39

Gervikosningar Pútins

Á kjördag fór þó ekki allt fram eins og Pútin óskaði sér. Andstæðingar hans léku á hann og niðurlægðu.

Úrslit forsetakosninganna í Rússlandi sem lauk sunnudaginn 17. mars voru ljós áður en kosningabaráttan hófst. Vladimir Pútin sem farið hefur með úrslitavald í Rússlandi í um það bil aldarfjórðung var eini raunverulegi frambjóðandinn. Hann var kosinn með 87.8% atkvæða.

Þessi sviðsetning var öll með því yfirbragði að um framkvæmd á lýðræðislegri kosningu væri að ræða. Vafalaust eru einhverjir Pútinistar á Vesturlöndum sem telja að engin brögð hafi verið í tafli og Pútin hafi fengið lögmætt umboð til að halda áfram að beita rússnesku þjóðina ofríki og nágranna hennar ofbeldi með hervaldi. Í Rússlandi gera kjósendur sér grein fyrir að þeir voru í raun eins og strengjabrúður valdhafa sem fara sínu fram hvað sem þegnum þeirra finnst.

Allur undirbúningur Pútins miðaði að því að ekkert gæti farið úrskeiðis á kjördag. Það skyldi blasa við öllum að ekkert væri Rússum eðlilegra en að ganga inn í kjörklefann og votta leiðtoganum virðingu með atkvæði sínu.

Á kjördag fór þó ekki allt fram eins og Pútin óskaði sér. Andstæðingar hans léku á hann og niðurlægðu. Þeim tókst að virkja almenning um allt Rússland til lævísra mótmæla sem sannaði kúguðum Rússum sem sætta sig ekki við einræðisstjórnina að þeir standa ekki einir.

Aðferðin sem andstæðingar Pútins beittu til að snúa kosningunum gegn honum var að láta boð út ganga og hvetja fólk til að safnast saman í raðir við kjörstaði klukkan 12 á hádegi sunnudagsins. Staðirnir sem Kremlverjar vildu nýta til að sviðsetja gervi-lýðræðið breyttust á þennan hátt í mótmælastöðvar gegn stjórnvöldum.

Silent flash mobs descended on polling stations at midday on Sunday in Noon Against Putin protests

Með því að fjölmenna við kjörstaði um hádegið á kjördag mótmælti almenningur Pútin.

Mótmælaaðgerðir eru bannaðar í Rússlandi og mótmælendur eru handteknir standi þeir saman á götum úti og hrópi slagorð gegn stjórnvöldum. Að raða sér upp við kjörstað á kjördegi er ekki refsivert.

Mótnælaaðgerðin var hugvitsamleg en útkallinu fylgdi áhætta því að enginn vissi hvernig því yrði tekið af almenningi. Kremlverjar höfðu hótað þeim langri fangelsisvist sem trufluðu framkvæmd kosninganna með andófi. Skipuleggjendum hádegisaðgerðarinnar var hins vegar ljóst að erfitt yrði að réttlæta lögregluaðgerðir gegn þeim sem biðu eftir að fá að kjósa. Pútin sjálfum væri mikið í mun að biðraðir mynduðust til að ljá honum stuðning.

Af því sem segir í fjölmiðlum að kjördegi loknum má draga þá ályktun að þessi aðferð til að mótmæla Pútin hafi heppnast betur en skipuleggjendur hennar þorðu að vona. Svo virðist sem þúsundir Rússa, einkum í þéttbýli, hafi tekið þátt í mótmælunum. Um allt Rússland streymdi fólk allt í einu að kjörstöðum um hádegisbilið. Margir brostu og stilltu sér upp til myndatöku áður en þeir nýttu atkvæðaseðilinn til að skrifa háðungarorð um Pútin eða krefjast friðar.

Það var Alexei Navalníj sem lagði á ráðin um þessa aðgerð nokkrum dögum áður en hann dó í fangabúðum Pútins norðan heimskautsbaugs. Ekkju hans, Júlíu, var fagnað þegar hún tók sér stöðu mótmælenda við rússneska sendiráðið í Berlín í hádegi sunnudaginn 17. mars.