Geir Hallgrímsson 100 ára
Geir lét sig varnar- og öryggismálin miklu skipta enda hafði afstaða hans til stjórnmála mótast á stríðsárunum og upphafsárum kalda stríðsins.
Þess er minnst í dag að 100 ár eru frá fæðingu Geirs Hallgrímssonar, borgarstjóra, formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og seðlabankastjóra.
Ég kynntist Geir í öllum þessum embættum. Hann miklaðist aldrei af neinu þeirra heldur tókst á við hvert verkefni af yfirvegun eftir ítarlega skoðun.
Undir formennsku Geirs vann Sjálfstæðisflokkurinn glæsilegan kosningasigur sumarið 1974, 42,7%, eftir að hér hafði verið vinstri stjórn við völd frá 1971, ríkisstjórn sem hafði á stefnuskrá sinni að flæma bandaríska varnarliðið úr landi. Varnarleysisstefnan kallaði fram viðbrögð almennings snemma árs 1974 með undirskriftarsöfnun Varins lands. Alls söfnuðust 55.522 undirskriftir frá 15. janúar til 20. febrúar 1974.
Geir lét sig varnar- og öryggismálin miklu skipta enda hafði afstaða hans til stjórnmála mótast á stríðsárunum og upphafsárum kalda stríðsins. Eftir að Geir varð formaður Sjálfstæðisflokksins fórum við Styrmir Gunnarsson ritstjóri með honum og Matthíasi Á. Mathiesen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, haustið 1973 í fræðsluferð til Noregs til að kynnast viðhorfum Norðmanna í öryggismálum og flugum allt norður til Kirkenes að sovésku landamærunum.
Okkur var hvarvetna tekið af mikilli velvild og hittum meðal annars Tryggve Bratteli forsætisráðherra og fleiri norska ráðamenn en Knut Frydenlund var utanríkisráðherra.
Ferðin sannfærði okkur um nauðsyn þess að eiga gott og náið samstarf við Norðmenn samhliða því að leggja rækt við varnarsamstarf við Bandaríkin og skapa mótvægi við aukin sovésk hernaðarumsvif á Norður-Atlantshafi. Er óhætt að fullyrða að þessi reynsla hafi sett verulegan svip á stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum mikilvæga málaflokki í stjórnmálatíð þeirra Geirs og Matthíasar en þeir gegndu báðir embætti utanríkisráðherra á níunda áratugnum.
Geir Hallgrímsson.
Ég minnist þess að oftar en einu sinni kom yfirmaður bandaríska varnarliðsins til fundar í Stjórnarráðshúsinu til að miðla upplýsingum til Geirs um stöðu mála á N-Atlantshafi og við fórum í stjórnstöðina á Keflavíkurflugvelli til að fá þar upplýsingar um sovésk umsvif við og umhverfis landið.
Þessi vitneskja sýndi að samhliða því sem unnið var að því að minnka pólitíska spennu gagnvart Sovétríkjunum með Helskinki-sáttmálanum frá 1975 dró sovéski flotinn á N-Atlantshafi aldrei saman seglin.
Geir Hallgrímsson tók af allan vafa um stefnu Íslands í þessum málaflokki þegar hann varð forsætisráðherra sumarið 1974. Hann setti jafnframt markið á útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur sumarið 1975. Hún kom til framkvæmda 15. október 1975. Í þriðja og harðasta þorskastríðinu var stjórnmálasambandi við Breta slitið til að forða að vegið yrði að NATO-aðild Íslands og varnarsamstarfinu við Bandaríkin.
Knut Frydenleund var milligöngumaður um samkomulag ríkisstjórna Íslands og Bretlands um viðurkenningu á 200 mílunum, Oslóar-samkomulagið frá 1. júní 1976. Traustið milli Geirs og norskra ráðamanna rofnaði aldrei og átti djúpar rætur frá námsárum hans og kynnum af norskum laganemum.