28.8.2020 9:54

„Galið“ að nefna Sundabraut

Ef Ásgeir Jónsson hefði nefnt hjólastíg til marks um mikilvæga opinbera framkvæmd hefði Smári glaðst en að nefna Sundabraut til sögunnar er „galið“.

Í ljós kom í gær (27. ágúst) að andúðin á fjölskyldubílnum sameinar forystumenn Pírata í borgarstjórn Reykjavíkur og á alþingi.

Fyrir skömmu birtist niðurstaða í skoðanakönnun í Fréttablaðinu um fylgi meirihlutans í borgarstjórn. Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, fagnaði niðurstöðu könnunarinnar með þeim orðum að hún væri óendanlega þakklát fyrir traustið og að hún héldi „ótrauð áfram að útrýma fjölskyldubílnum“. Sigurborg Ósk er ekki aðeins borgarfulltrúi Pírata heldur einnig Samtakanna um bíllausan lífsstíl.

Bíllausi lífsstíllinn birtist í reiðikasti sem þingmaður Pírata, Smári McCarthy, tók svar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra við spurningu þingmannsins á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar þingsins fimmtudaginn 27. ágúst.

Ásgeir sagði að honum þætti „alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum.“ Vandinn við innviðafjárfestingar á borð við Sundabraut væri tæknilegur en að hægur leikur væri að fjármagna slíka framkvæmd.

967106Skipulagsvandinn vegna Sundabrautar vefst fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. Hér eru sýndar tvær leiðir yfir Elliðaárvoginn. Nú er þess krafist að borgin komist að niðurstöðu svo unnt sé að hrinda sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu í framkvæmd.

Þessi svör seðlabankastjórans urðu til þess að Smári sagði á Facebook-síðu sinni:

„Nú vill þannig til að Ásgeir er ekki sérfræðingur í vegagerð, borgarþróun, umhverfismálum, eða álíka. Hann á að heita sérfræðingur í hagkerfinu, og þegar hann er boðaður á fund Efnahags- og viðskiptanefndar sem slíkur sérfræðingur, og sem Seðlabankastjóri, þá væri best ef hann myndi halda sig við þannig umræðu.

Það er auk þess ekkert gagnlegt að fjárfesta bara í steypu og samgöngumannvirkjum. Þótt það megi nú alveg gera það líka ─ nægur er skorturinn á ýmsum slíkum framkvæmdum, einkum hjólastígum og álíka[...]

Þetta var eiginlega galið hjá Ásgeiri. Ég gat bara ekki svarað þessu á meðan á fundinum stóð vegna tímaskorts.“

Ef Ásgeir Jónsson hefði nefnt hjólastíg til marks um mikilvæga opinbera framkvæmd hefði Smári glaðst en að nefna Sundabraut til sögunnar er „galið“ að mati þingmannsins enda í andstöðu við bíllausan lífsstíl ­– höfuðbaráttumál Pírata, flokks sem vill núll-stilla eigið samfélag. Það er einfaldlega „galið“ leyfi sér einhver að ganga gegn trúarsetningunni.

Um Sundabraut hefur verið rætt sem brýna framkvæmd í meira en tvo áratugi. Framkvæmdir stranda á því að borgarstjórn Reykjavíkur veit ekki hvernig brautin á að tengjast umferðaræðum borgarinnar þegar hún kemur yfir Elliðaárvoginn.

Í nýgerðum sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu segir að við endanlega útfærslu framkvæmda verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.

Píratanum Sigurborg Ósk Haraldsdóttur er með þessu sett fyrir skipulagsverkefni sem henni ber að leysa áður en nokkuð gerist varðandi þátt ríkisins við fjármögnun borgarlínu. Þetta þola Píratar ekki og því má ekki minnast á Sundabraut.