30.5.2021 10:41

Gagnsæi D-lista - valdabrölt í Viðreisn

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum um framboðslista Sjálfstæðisflokksins en hjá klofningsflokknum Viðreisn.

Sjálfstæðismenn gengu til prófkjörs í tveimur kjördæmum laugardaginn 29. maí, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Í báðum kjördæmunum höfðu oddvitar D-listans í kosningunum 2017 dregið sig í hlé, Kristján Þór Júlíusson í norðaustri og Páll Magnússon í suðri. Njáll Trausti Friðbertsson skipar nú oddvitasætið í NA-kjördæmi og Guðrún Hafsteinsdóttir í S-kjördæmi.

Njáll Trausti hefur setið eitt kjörtímabil á þingi og áunnið sér viðurkenningar sem öflugur málsvari þeirra málefna sem honum eru hugleikin. Hér skal sérstaklega nefnt að hann situr sem formaður NATO-þingmannanefndar alþingis og tók við af mér sem formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, á liðnum vetri. Hann hefur aflað sér góðrar þekkingar á málefnum sem varða öryggi þjóðarinnar og þróun öryggismála á N-Atlantshafi. Vaxandi þörf er á þingmönnum með áhuga á þessum mikilvæga málaflokki til að kynna sameiginlegan málstað NATO-þjóðanna hér og málstað Íslands á vettvangi NATO.

Guðrún Hafsteinsdóttir var formaður Samtaka iðnaðarins um tíma og hefur víða látið að sér kveða á vettvangi atvinnulífsins. Fyrir áhugamann um framgang landbúnaðar í ljósi umræðuskjalsins sem við Hlédís H. Sveinsdóttir sömdum undir heitinu Ræktum Ísland! er brýnt að forystumenn Sjálfstæðisflokksins í miklum landbúnaðarkjördæmum eins og NA-kjördæmi og S-kjördæmi leggi hugmyndum um nýja starfsumgjörð landbúnaðarins lið.

1277736Guðrún Hafsteinsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

S-kjördæmi er sérstaklega spennandi í þessu tilliti vegna fólksfjölgunar þar þegar staðir eins og Hveragerði, Selfoss og Þorlákshöfn höfða sífellt meira til íbúa á höfuðborgarsvæðinu og þéttbýlið færist nær landbúnaðinum. Við það skapast ný og gagnkvæm tækifæri sem ber að nýta innan nýrrar umgjörðar fyrir landbúnaðinn. Þar skipta viðhorf innan Samtaka iðnaðarins ekki síður miklu en innan Bændasamtaka Íslands.

Allt annað yfirbragð er á ákvörðunum um framboðslista Sjálfstæðisflokksins en hjá klofningsflokknum Viðreisn sem nú hefur endanlega hafnað Benedikt Jóhannessyni, frumkvöðli að stofnun flokksins. Kostuleg samtöl foringja Viðreisnar á bakvið tjöldin og uppljóstrun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur flokksformanns um þau staðfesta enn að til klofningsins var stofnað vegna tilfinninga og metnaðar frekar en málefna. Þeir sem stofnuðu Viðreisn urðu undir með stefnu sína innan Sjálfstæðisflokksins og sáu að þeir áttu ekki neinn frama þar. Í stað þess að reyna að vinna stefnu sinni stuðning innan flokksins var stofnað til framboðs utan hans.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, færir úrsögn Benedikts og félaga úr Sjálfstæðisflokknum í þann búning að þar hafi „alþjóðasinnar“ verið „fokvondir“ á ferð. Að kalla ESB-aðildarsinna „alþjóðasinna“ er öfugmæli. Miðað við kröfu Brusselmanna um að eiga síðasta orðið um utanríkisstefnu einstakra ESB-ríkja stenst ekki að kalla þá „alþjóðasinna“ sem vilja aðild Íslands að ESB.