23.8.2025 10:21

Fyrst tökum við Ísland síðan....

Von Brusselmanna er að jákvæð afstaða Íslendinga fyrir ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu verði til þess að Norðmenn íhugi sinn gang og sæki í þriðja sinn um aðild að ESB.

Mat á stjórnmálaþróun í Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar leiðir til þess að ráðamenn Evrópusambandsins telja líklegra að íslensk stjórnvöld gangi í aðlögunarfaðm Brusselmanna á næstunni en norsk.

Á Íslandi er ríkisstjórn undir forystu stjórnmálamanna sem gengu á bak orða sinna í ESB-málum um leið og þeir mynduðu ríkisstjórn. Þá töldu þeir sig hafa styrk til að knýja í gegn jákvæða niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2027 um næsta skref Íslands inn í ESB. Í því skyni settu þeir ákvæði um slíka atkvæðagreiðslu í stjórnarsáttmála sinn.

Í Noregi verður kosið til þings í september. Forystumenn Jafnaðarmannaflokksins og Hægriflokksins segjast hlyntir ESB-aðild en muni ekki vinna að henni á næsta kjörtímabili. Þeir vilji ekki sundra þjóð sinni. Orðum þessara stjórnmálamanna er treyst. Meirihluti Norðmanna vill ekki inn í ESB og andstaða við aðild eykst meðal ungra kjósenda í Noregi.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti yfir því 17. júlí 2025 að Ísland væri ESB-umsóknarríki. Af hálfu hennar er vilji til þess að vinna að því að leiðtogaráð ESB samþykki Ísland sem aðildarkandidat en til þess vill hún geta stuðst við niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Raddir eru innan ríkisstjórnarinnar og í þingflokkum hennar um að flýta beri þjóðaratkvæðagreiðslunni.

EU_flag_Arctic_large

Von Brusselmanna er að jákvæð afstaða Íslendinga fyrir ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu verði til þess að Norðmenn íhugi sinn gang og sæki í þriðja sinn um aðild að ESB.

Dilja Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali í Dagmálum í vikunni að danskur ESB-þingmaður hefði fagnað aðildarstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar, hún vekti vonir um að jafnvægið breyttist innan ESB, þangað kæmu ekki aðeins fátæk ríki úr suðri heldur einnig auðug úr norðri sem gætu lagt eitthvað með sér.

Ólafur Sigurðsson, fyrrv. fréttamaður á sjónvarpinu, vekur í Morgunblaðinu í dag (23. ágúst) athygli á grein eftir Villy Sövndal, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur (2011–2013) og núna þingmann á Evrópuþinginu, og Roderic Kefferputs, starfsmann í Brussel-deild Heinrich-Böll-Stiftung, í netmiðlinum Project Syndicate 15. ágúst.

Ólafur segir greinarhöfundana komast að þessum kjarna málsins: „ESB er að vinna í því að taka inn tíu fátækustu lönd Evrópu. Það vanti einhvern til að borga brúsann og Ísland og Noregur séu meðal fimm ríkustu landa í heimi og hafi því efni á að borga.“

Þeir segi að von der Leyen sé fyrir löngu byrjuð að vinna að stækkun í norður. Undir lok greinar segir Ólafur Sigurðsson:

„Við munum það öll þegar Kristrún Frostadóttir lýsti því yfir fyrir kosningar að innganga Íslands í ESB væri ekki forgangsmál á þessu kjörtímabili. Hefur forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, tekið yfir atburðarásina? Grein þeirra Roderick Kefferputz og Villy Sövndal gefur það til kynna.“