11.4.2019 9:37

Fyrrverandi flokksformenn, O3 og kristalkúlurnar

Umræðurnar um orkupakkann snúast ekki lengur um hann heldur nýja fyrirbrigðið O3 sem hefur orðið til í höndum þeirra sem mikla málið fyrir sér.

Flókið er að sitja í formennsku flokks og takast á við þau viðfangsefni sem upp koma hverju sinni. Nú þegar fylgst er með framgöngu margra fyrrverandi flokksformanna í umræðunum um þriðja orkupakkann sést að ekki er síður krefjandi að vera fyrrverandi flokksformaður.

Í fljótu bragði virðast átta fyrrverandi flokksformenn blanda sér í málið í fjölmiðlum: Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson úr Sjálfstæðisflokki. Þeir eru á öndverðum meiði en þó sammála um að vega að hlut núverandi forystumanna flokksins og þingmanna í málinu. Jón Baldvin Hannibalsson og Sighvatur Björgvinsson úr Alþýðuflokki, þeir slá úr og í með neikvæðum rökum sínum. Sú fullyrðing Jóns Baldvins er röng að hér hafi ekki verið leidd í lög EES-ákvæði vegna skipaskurða og járnbrauta. Össur Skarphéðinsson úr Samfylkingu, stuðningsmaður. Guðni Ágústsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson úr Framsóknarflokki, andstæðingar. Svavar Gestsson Alþýðubandalagi, stuðningsmaður.

Shutterstock_678035632-675x380Til að réttlæta afskipti sín af málinu mikla þessir ágætu menn mjög efni þess, sé ekki farið að ráðum þeirra sé miklu meira í húfi en felst í því sem liggur fyrir alþingi.

Frosti Sigurjónsson, fyrrv. alþingismaður, hefur stofnað til samtakanna Orkan okkar. Hann lætur eins og þeir sem skrifi undir áskorun samtakanna hvetji forseta Íslands til að neita að staðfesta lög sem tengja innleiðingu O3. Á þingi verður málið afgreitt með þingsályktun sem ekki kemur til kasta forseta Íslands og tvennum lögum: (1) um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema alþingi samþykki og (2) Orkustofnun hafi ekki aðeins sjálfstæði gagnvart raforkufyrirtækjum heldur einnig stjórnvöldum.

Sú spurning vaknar hvort fyrir Frosta og félögum vaki að gera frumvarpið um Orkustofnun svo tortryggilegt að knýja megi Guðna Th. Jóhannesson til að hafna því.

Sigmundur Davíð, eini fyrrv. flokksformaðurinn sem enn er flokksformaður, en í nýjum flokki, segir í Morgunblaðinu í morgun (11. apríl) að Orkustofnun verði einskonar útvörður eða undirstofnun fagstofnunar ESB á sviði orkumála, ACER, hér á landi. Sigmundur Davíð hefur líklega verið á leið til Katar fyrir viku þegar forstjóri ACER talaði á fundi Orkustofnunar og tók fram að sér kæmi ekkert við hvað gerðist utan ESB.

Umræðurnar um orkupakkann snúast ekki lengur um hann heldur nýja fyrirbrigðið O3 sem hefur orðið til í höndum þeirra sem mikla málið fyrir sér og telja það kristalkúlu sem vísi þeim leið inn í svarta, frelsislausa framtíð. Að rýna í slíkar kúlur er ágæt dægrastytting hafi menn ekkert annað við að vera en að hafna málefnalegum rökum og leggja það sem í kúlunum sést til grundvallar við töku ákvarðana hér og nú er haldlítið.