Fyrirsát í Hvíta húsinu
Þar sátu æðstu ráðamenn Bandaríkjanna í forsetaskrifstofu Hvíta hússins, Oval Office, og gerðu harða hríð að Zelenskíj sem stóð uppi í hárinu á þeim eins og hann hefur í þrjú ár leitt þjóð sína í stríðinu gegn Vladimir Pútin Rússlandsforseta.
Bein útsending föstudaginn 28. febrúar frá fundi Volodymyrs Zelenskíj Úkraínuforseta með Donald Trump forseta og JD Vance varaforseta Bandaríkjanna verður lengi í minnum höfð.
Þar sátu æðstu ráðamenn Bandaríkjanna í forsetaskrifstofu Hvíta hússins, Oval Office, og gerðu harða hríð að Zelenskíj sem stóð uppi í hárinu á þeim eins og hann hefur í þrjú ár leitt þjóð sína í stríðinu gegn Vladimir Pútin Rússlandsforseta.
Yfirlýstur tilgangur heimsóknar Zelenskíjs til Washington var að skrifa undir rammasamkomulag við Trump um að stofnaður skyldi sjóður um tekjur af náttúruauðlindum Úkraínu og úr honum fengju Bandaríkjamenn endurgreitt það sem þeir hefðu lagt Úkraínumönnum til í stríðinu.
Þegar Zelenskíj lýsti sjónarmiðum sínum, meðal annars þeim alkunnu sannindum að það ætti að innheimta stríðsskaðabætur frá þeim hóf stríðið, sem væru Rússar, þeir viðurkenndu ekki tilverurétt Úkraínu og vildu afmá landið af kortinu ásamt stjórnendum þess, brugðust Trump og Vance við hinir verstu. Trump sakaði Zelenskíj um óvirðingu, vanþakklæti og að stuðla að þriðju heimsstyrjöldinni, hann ætti að hunskast til að leggja niður vopn.
Trump sagðist vita sínu viti, þetta stríð hefði aldrei hafist á sinni forsetavakt, hann væri bisnessmaður og kynni að gera díl.
Zelenskíj grípur til varna í forsetaskrifstofunni 28. febrúar 2925..
Zelenskíj yfirgaf Hvíta húsið í styttingi og án þess að skrifa undir nokkuð og ekki var efnt til sameiginlegs blaðamannafundar – enda hefði ekkert toppað það sem áður var sýnt allri heimsbyggðinni í beinni og verður örugglega endursýnt oftar en flest annað af ferli Trumps og er þó af nógu að taka.
Gleðihróp bárust frá Moskvu og Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, dáðist að því hve Trump og Vance hefðu sýnt undraverða sjálfsstjórn með því að „löðrunga ekki bastarðinn“.
Zelenskíj fór hins vegar í viðtal við Bret Baier á Fox News og notaði tækifærið til að þakka bandarísku þjóðinni og forystunni í Hvíta húsinu fyrir gott samstarf við Úkraínumenn. Hann hélt sér við efnið í samtalinu og lagði sig greinilega fram um að færa samskipti sín við Trump í betra horf eftir fyrirsátina sem honum var gerð í forsetaskrifstofunni með ásökunum um að hann drægi stríðið við Rússa á langinn.
Hvað sem sagt er eða verður um samtalið í forsetaskrifstofunni má þakka fyrir að það fór fram í beinni útsendingu. Það sýndi öllum við hvað bandamenn Bandaríkjanna eiga að etja í samtölum við Trump og félaga. Þeir halla sér greinilega að stuðningi við Pútin og verða hinir verstu á valdasessi sínum sé þeim hallmælt.
Þetta er vissulega áhyggjuefni fyrir alla sem telja samstöðu lýðræðisþjóða bestu og einu færu leiðina til að halda ofbeldisríkjum einræðisherra í skefjum. Þó er þetta ekki síst áhyggjuefni fyrir bandarísku þjóðina sem tapar virðingu á alþjóðavettvangi og lýtur stjórn manna sem svífast einskis til að niðurlægja þá sem eru þeim ósammála eða viðurkenna ekki snilli þeirra.