28.3.2019 9:17

Fyrirmynd frá Sir Cliff fyrir Samherjamenn

Það er ábyrgðarhluti að segja fréttir af aðgerðum lögreglu. Mikið er yfirleitt í húfi þegar hún er kölluð á vettvang.

Í morgun (28. mars) var frétt í ríkisútvarpinu kl. 09.00 þar sem fréttamaður lýsti ferðum sérsveitarmanna lögreglunnar skammt frá Hörðuvallaskóla í Kópavogi og sagði þá á leið að einhverju fjölbýlishúsi. Mátti skilja lýsinguna þannig að um leynilega aðför að vopnuðum manni væri að ræða. Það var slæmt fyrir þann sem lögreglan leitaði að beina útsendingin í fréttatímanum var ekki lengri. Þar með var skrúfað fyrir nánari fréttir af ferðum lögreglunnar frá fréttamanninum.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, sat fyrir svörum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis miðvikudaginn 27. mars vegna Samherjamálsins svonefnda þar sem embættismenn seðlabankans beittu valdníðslu. Á visir.is stendur:

„[S]agði [Gylfi] bankaráðið hafa rætt þá staðreynd að einn tiltekinn fjölmiðill, það er Ríkisútvarpið, hafi fengið ábendingu fyrirfram um húsleitir og verið á staðnum með myndatökumenn á tveimur stöðum á landinu. Sagði hann „gríðarlegan trúnaðarbrest“ fólginn í því að stjórnvald sem réði yfir miklum valdheimildum virti ekki trúnað um einstakar aðgerðir og framkvæmdi húsleitir í beinni útsendingu. Slíkt væri „auðvitað algjörlega óþolandi“.

Sagði hann bankaráðið ekki hafa upplýsingar um það hver eða hverjir hefðu lekið upplýsingum um húsleitina til RÚV en vísaði til þess að svo virðist sem Umboðsmaður Alþingis hafi fengið nafnlausar ábendingar sem geti skýrt þau mál betur.“

_102699636_cliffepaSir Cliff Richards

Árið 2014 gerði lögregla húsleit hjá breska söngvaranum Sir Cliff Richard. Áður en í hana var ráðist hafði einhver samband við BBC sem sendi meðal annars þyrlu á vettvang til að taka myndir af því þegar lögregla réðst inn í húsið.

Sir Cliff taldi sig hafa orðið fyrir miklum álitshnekki vegna þessa og í júlí 2018 vann hann bótamál fyrir rétti, dómarinn dæmdi honum 210.000 pund í bætur og auk þess skyldi BBC greiða 850.000 punda reikning lögfræðinga söngvarans, samtals 1.060.000 pund aðeins vegna Sir Cliffs eða um 170 milljónir króna.

Það er ábyrgðarhluti að segja fréttir af aðgerðum lögreglu. Mikið er yfirleitt í húfi þegar hún er kölluð á vettvang og oft nauðsynlegt að hugsa sig um tvisvar áður en „farið er með það í loftið“. Hitinn í Samherjamálinu er svo mikill að ef til vill ákveða menn þar að fara að fordæmi Sir Cliffs Richards.