27.6.2017 11:54

Fyrirhyggjuleysi vegna Costco

Fyrirhyggjuleysið kemur mönnum víða í koll og það á undarlega marga talsmenn hér sem aðhyllast sjónarmiðið „þetta reddast“.

Fyrirhyggjuleysi birtist oft í umræðunum um íslensk málefni. 

Sagt er að það sé eðlislæg tilfinning Rússa að um þá sé setið og þeir túlka til dæmis núna varnaraðgerðir NATO-ríkjanna í austurhluta Evrópu sem ögrun við sig. Um okkur Íslendinga má segja að það sé eðlislæg tilfinning að það „gerist ekki hér“. Enginn sitji um okkur hvorki innan landsins né utan þess. Fjarlægðin skapi okkur nauðsynlegt ytra öryggi og innan lands þekki allir alla og þess vegna sé ekkert að óttast. Þessi tilfinning virðist sú sama og áður þótt um tvær milljónir ferðamanna komi til landsins og mörg þúsund farandverkamenn starfi hér.

Á útvarpsstöð Árvakurs K100 var í gær rætt vuð Bjarka Pétursson frá rannsóknar- og markaðsfyrirtækinu Zenter í tilefni af því að risafyrirtækið Costco hefur opnað hér verslun. Er sagt frá efni samtalsins á mbl.is í dag, 27. júní. 

Zenter vann skýrslu árið 2016 þar sem fram kom að Costco-verslun hér hefði veruleg áhrif á rekstur íslenskra innflutningsfyrirtækja og heildsala. Þá segir:

„Nú þegar um mánuður er liðinn frá opnun [Costco-verslunarinnar] segir Bjarki að mörg íslensk fyrirtæki hafi misst allt að þrjátíu prósent veltu sinnar, enda hafi þau vanmetið opnun Costco og sumir pollrólegir þremur vikum fyrir opnun.

„Þeir eru ekki rólegir í dag. Ég gæti trúið að þeir væru búnir að missa svona 25-30% af veltunni sinni. Þannig að það er ótrúlega sorglegt,“ sagði Bjarki. Spurður hvort að aðsóknin sé ekki aðeins nýja brumið var Bjarki ekki viss um það.

„Við spáum því að það sé ekki og fyrir því eru fjölmörg rök. Þetta er annað stærsta verslunarfyrirtæki í heimi, þeir eru stærsti vínsali í heimi, á þessu ári verða þeir sennilega stærsti bílasali í Bandaríkjunum. Förum fimm ár fram í tímann, hvar verður Costco þá. Munu þeir reka stærstu ferðasölu á Íslandi, munu þeir selja tryggingar eins og þeir gera í Bandaríkjunum, mun vínið verða komið inn, munu þeir byrja að selja bíla, verður heimasíðan þeirra komin í gang? Þannig að það er svo fjölmargt sem Costco á eftir að gera sem við eigum eftir að sjá og þú þarft ekki annað en að rýna bara hvernig þeir eru að gera á öðrum mörkuðum til að sjá.““

Fyrirhyggjuleysið kemur mönnum víða í koll og það á undarlega marga talsmenn hér sem aðhyllast sjónarmiðið „þetta reddast“. Afleiðingin getur oft verið sorgleg.